Innlent

Ekki for­sendur til skóla­halds í Gríms­ey

Árni Sæberg skrifar
Ekki verður hægt að sækja grunnskóla í Grímsey á komandi skólaönn.
Ekki verður hægt að sækja grunnskóla í Grímsey á komandi skólaönn. Vísir/Jóhann K

Upplýsingaöflun bæjarráðs Akureyrarbæjar hefur leitt í ljós að ekki séu forsendur til skólahalds í Grímsey. Skólahald var fellt niður árið 2019 en foreldrar þriggja barna óskuðu eftir því að það yrði endurvakið.

Í nýjustu fundargerð bæjarráðs Akureyrarbæjar segir að fræðslu- og lýðheilsuráð bæjarins hafi samþykkt fyrir sitt leyti að endurvekja skólahald í Grímsey á vorönn 2024, að því gefnu að þrír nemendur ætli að hefja þar skólagöngu. Staðan verði endurmetin í maí 2024. 

Fræðslu- og lýðheilsuráð hafi vísað málinu til bæjarráðs þann 13. nóvember síðastliðinn. Bæjarráð hafi þá falið Kristínu Jóhannesdóttur, sviðsstjóra fræðslu- og lýðheilsusviðs, að afla frekari upplýsinga um málið og leggja fyrir bæjarráð.

Í fundargerðinni segir að bæjarráð leggi áherslu á samfellda skólagöngu barna og greiðan aðgang að frístundastarfi í samræmi við barnalög og því sé réttast að barn gangi aðeins í einn skóla, þar sem aðgangur að frístundastarfi er góður. Þó ríki skilningur á aðstæðum fjölskyldna, þar sem annað foreldri stundar sína atvinnu að stórum hluta í Grímsey. 

Vilji sé til að koma til móts við foreldra barna sem eiga búsetu í Grímsey með auknum sveigjanleika til náms með stuðningi frá skóla barns, í allt að þrjár vikur á önn. Bæjarráð feli sviðsstjóra fræðslu- og lýðheilsusviðs að skapa þá umgjörð í samstarfi við skóla barnanna og kynna hana foreldrum.

„Upplýsingaöflun hefur leitt í ljós að ekki séu forsendur til skólahalds í Grímsey.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×