Innlent

Milda þurfi höggið fyrir heimilin

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. Vísir/Vilhelm

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, kynnti í dag kjarapakka flokksins vegna fjárlaga og komandi kjarasamninga á sérstökum blaðamannafundi.

„Nú verður að milda höggið fyrir heimilin. Samfylkingin vill aðhald þar sem þenslan er í raun. Það er lykillinn að því að vinna bug á verðbólgunni,“ segir Kristrún í tilkynningu til fjölmiðla.

„Á tímum hárra vaxta og verðbólgu er ótrúlegt að ríkisstjórnin sé að minnka stuðning við skuldsett heimili og leigjendur. Samfylkingin vill fara aðra leið. Þess vegna kynnum við í dag kjarapakka sem gengur út á að vinna bug á verðbólgunni, með aðhaldi þar sem þenslan er í raun og veru og um leið að milda höggið fyrir heimilin.“

Tímabundin leigubremsa og vaxtabætur til bænda

Fimm þúsund heimilum verði hent út úr vaxtabótakerfinu ef fjárlög ríkisstjórnarinnar verði samþykkt óbreytt. Sömuleiðis lækki fjárheimildir fyrir húsnæðisbætur til leigjenda á milli ára.

Segir í tilkynningu Samfylkingarinnar að tillögur kjarapakkans falli undir tvo flokka sem beri yfirskriftina „Mildum höggið fyrir heimilin“ og „Vinnum bug á verðbólgunni.“ Fyrir utan stuðning við skuldsett heimili sé þar meðal annars að finna vaxtabætur fyrir bændur og aðgerðir til að auka húsnæðisöryggi, svo sem með því að ná stjórn á Airbnb, tímabundinni leigubremsu að danskri fyrirmynd og ívilnun til uppbyggingar almennra íbúða.

Loks séu í kjarapakkanum tillögur um 24 milljarða aðhald á tekjuhlið ríkissjóðs en þar af sé gert ráð fyrir sex milljörðum til að fjármagna aðgerðir vegna ástandsins í Grindavík, svo sem afkomutryggingu og leigustuðning. Tekjutillögurnar eru óbreyttar frá þeim kjarapakka sem Samfylkingin kynnti fyrir fjárlög og kjarasamninga í desember í fyrra, að því er segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×