Innlent

Ölvaður ók langt yfir há­marks­hraða og endaði á að kýla lög­reglu­mann

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla var meðal annars kölluð út vegna hávaða sem reyndist koma frá tölvuleik.
Lögregla var meðal annars kölluð út vegna hávaða sem reyndist koma frá tölvuleik. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti nokkuð fjölbreyttum verkefnum í gærkvöldi og nótt og var meðal annars tvívegis kölluð til vegna ölvaðs manns sem var að áreita fólk í miðborginni.

Honum var vísað á brott í fyrra skiptið, virðist hafa snúið aftur og hét því að fara að fyrirmælum lögreglu í seinna skiptið.

Tveir voru handteknir í miðborginni grunaðir um sölu og dreifingu lyfja og fíkniefna. Þá var tilkynnt um hávaða frá íbúð en þar reyndist um að ræða einstakling sem var að spila tölvuleik. Lofaði hann að hafa lægra.

Lögregla stöðvaði einnig ökumann fyrir of hraðan akstur en sá var á 108 km/klst þar sem hámarkshraði er 60 km/klst. Ökumaðurinn reyndist undir áhrifum áfengis og var fluttur á lögreglustöð en þar endaði hann á að kýla lögreglumann og var í kjölfarið vistaður í fangaklefa.

Fleiri mál komu á borð lögreglu þar sem menn voru í annarlegu ástandi og þá var tilkynnt um minniháttar líkamsárás, þar sem tveir voru handteknir og brotaþoli fluttur á bráðamótttöku Landspítala.

Lögregla var einnig kölluð til vegna rúðubrots og einstaklinga sem voru að sprengja flugelda. Þá var tilkynnt um umferðaróhapp þar sem kviknaði í bifreiðinni eftir óhappið. Allir komust heilir úr bílnum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×