Lífið

Sticky Vicky öll

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Victoria María Aragüés Gadea, Sticky Vicky, var orðinn áttræð þegar hún lést í morgun.
Victoria María Aragüés Gadea, Sticky Vicky, var orðinn áttræð þegar hún lést í morgun. Facebook-síða Victoriu

Erótíski dansarinn Victoria María Aragüés Gadea, betur þekkt sem Sticky Vicky, er látin áttatíu ára að aldri. Vicky var skemmtikraftur á sólarströndinni Benidorm um árabil.

Dóttir Vicky, sem lýst er sem goðsögn í breskum miðlum sem fjalla um andlátið, segir í færslu að móðir hennar hafi fallið frá snemma í morgun.

Sticky Vicky eldri fyrir framan veggspjald af sýningu dóttur sinnar sem heldur nafni hennar áfram á lofti.Facebook-síða Sticky Vicky

„Ég trúi því ekki. Hún er farin, umvafin fjölskyldu sinni og allri okkar ást. Ég þakka guði fyrir að geta alltaf verið við hlið hennar. Hjarta mitt er brostið,“ segir Maria dóttir hennar.

Vicky var vel þekktur skemmtikraftur á Benidorm hvort sem var hjá þeim sem sóttu óhefðbundnar erótískar sýningar hennar eða ekki. Segja má að hún hafi framkvæmt erótísk töfrabrögð og skemmti hún gestum á Benedorm í þrjá áratugi.

Talið er að milljónir hafi séð Sticky Vicky leika listir sínar allt frá áttunda áratugnum til ársins 2016 þegar hún settist í helgan stein. Telja má fullvíst að hundruð ef ekki þúsundir Íslendinga hið minnsta hafi sótt sýningu hjá henni enda Benidorm vinsæll áfangastaður landsmanna um árabil.

Samúðarkveðjum rignir til fjölskyldu Vicky á Facebook-síðu hennar þar sem fólk af öllum kynjum lýsir henni sem goðsögn og minnist eftirminnilegra sýninga á Benidorm.

Maria dóttir Sticky Vicky hefur fetað í fótspor móður sinnar og heldur sýningar á spænsku sólarströndinni.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×