Innlent

Byrjað að fylla í sprunguna

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Stórtækar vinnuvélar eru notaðar við viðgerðirnar.
Stórtækar vinnuvélar eru notaðar við viðgerðirnar. Vísir/Einar

Framkvæmdir við sprunguna sem varð til við jarðhræringarnar í Grindavík eru hafnar við Austurveg. Tækja- og vélamaður hjá Grindavíkurbæ segir lagnirnar líta mjög vel út miðað við það sem reiknað var með. 

Þorlákur Gíslason tækja-og vélamaður segir viðgerðir hafnar þar sem gliðnunin var mest. 

„Sums staðar eru lagnir farnar í sundur en þetta lítur mjög vel út miðað við lætin sem voru hérna á föstudeginum. Og þetta er betra en við héldum að þetta væri,“ sagði Þorlákur í samtali við fréttamann sem heimsótti Grindavík í dag. 

Þorlákur segir koma á óvart að ekki fór verr og að eyðileggingin hafi ekki verið meiri. Vísir/Einar

Kemur það þér á óvart hversu vel þetta er farið?

„Já eiginlega, því ég var hérna á föstudeginum þegar þetta var, og þetta var alveg hræðilegt,“ segir Þorlákur. Þess vegna komi honum á óvart hversu heilar byggingar eru. 

„Það eru nokkur hús alveg ónýt alveg, en miðað við hvernig lætin voru þá er ótrúlegt að bærinn líti ennþá svona út.“

Aðspurður segist hann vona að bærinn verði fljótt kominn í þannig stand að hægt verði að taka á móti fólki á ný. „Við erum alla vega að reyna að vinna eins hratt og við getum til þess að geta boðið Grindvíkinga aftur velkomna heim.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×