Innlent

Al­var­leg staða að vera bara með eina skemmda neyslu­vatns­lögn

Jón Þór Stefánsson skrifar
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, segir nauðsynlegt að gera við lögnina fyrir veturinn.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, segir nauðsynlegt að gera við lögnina fyrir veturinn. Vísir/Vilhelm

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, segir erfiða stöðu uppi vegna skemmda sem orðið hafa orðið á neysluvatnslögninni til eyja. Í dag verður staðan á lögninni skoðuð og viðbrögð og viðgerð áætluð.

„Þetta er auðvitað alvarlegt ástand af því að við erum bara með eina neysluvatnslögn,“ segir Íris sem bendir þó á að sem betur fer hafi Vestmanneyingar aðgang að vatni.

Skemmdirnar urðu þegar akkeri Hugins VE festist í lögninni síðastliðið föstudagskvöld.

Rætt verður um ástandið á Almannavarnanefndarfundi, með HS veitum sem reka lögnina, síðdegis í dag. Þar verður meðal annars til skoðunar hvort að þörf sé á erlendu viðgerðarskipi til þess að gera við lögnina.

„Þar tökum við ákvörðun um næstu skref og hvernig tímaplanið verður.“

Talið er að skemmdirnar, sem eru á fimmtíu metra kafla, séu þannig staðsettar, inni í innsiglingunni, að það eigi að vera hægt að gera við þær. Að sögn Írisar mun það þó skýrast betur seinna í dag.

Aðspurð um hvort hún óttist frekari skemmdir á lögninni segir Íris svo ekki vera. „Staðan er bara þannig núna, og við horfum ekki á neina aðra mynd nema að leiðslan haldi. En það er nauðsynlegt að gera við þetta fyrir veturinn.“

„Það er bara ein lögn, og það er ástæðan fyrir því að við höfum bent á mikilvægi þess að lögð verði önnur vatnslögn.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.