Innlent

Grind­víkingar enn­þá sam­fé­lag þrátt fyrir að vera að heiman

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir stuðning þjóðarinnar í garð Grindvíkinga hvetjandi. 
Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir stuðning þjóðarinnar í garð Grindvíkinga hvetjandi.  Stöð 2

Fyrr í kvöld fóru fram körfuknattleikir kvenna- og karlaliða Grindavíkur gegn Þór á Akureyri og Hamri í Subway-deildinni í Smáranum í Kópavogi. Grindvískur þingmaður segir þann stuðning sem Grindvíkingar fá frá þjóðinni hvetja þá áfram. 

Vilhjálmur Árnason þingmaður og Grindvíkingur ræddi við fréttamann á leiknum í Kvöldfréttum Stöðvar 2. Hann heimsótti Grindavík í dag og sagði frá hver staðan væri á bænum. 

„Hún er misjöfn eftir hvar við erum í bænum. Það er þessi sprunga sem liggur í gegnum bæinn og það eru mörg hús sem eru við þessa sprungu sem eru mjög illa farin. En almennt séð er bærinn fallegur og reisn yfir honum. Þannig að þegar þú ert í bænum þá upplifirðu ekki allar þessar miklu skemmdir en vissulega eru mörg hús og sprungan sjáanleg í gegnum bæinn,“ segir Vilhjálmur. 

Hvernig var tilfinningin að koma aftur inn í Grindavík?

„Það er alltaf gott að koma í Grindavík og mér líður alltaf betur eftir þessi bæði skipti sem ég er búinn að koma. Þá hefur mér bara liðið betur eftir og sjá þessa reisn sem er ennþá yfir bænum þó að vissulega séu þessar skemmdir, þessi ummerki af þessum jarðhræringum,“ segir Vilhjálmur. 

„Þó að við séum ekki heima í Grindavík þá erum við samfélag ennþá og samfélagið okkar er öflugt. Og það hefur mikla þýðingu og íþróttirnar munu sameina okkur í því að halda samfélaginu okkar öflugu.“

Hann segir stuðninginn sem körfuboltaliðið hefur fengið hafa skilað góðum úrslitum. „Og þetta er sá stuðningur sem við finnum fyrir frá þjóðinni í dag og hvetur okkur áfram í því verkefni sem við erum í,“ segir Vilhjálmur að lokum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×