„Staðan er sú að hjá okkur voru 75 manns í nótt, einir fimm hundar og fjórir kettir. Nú er fólk að vakna og fá sér morgunmat hjá okkur, teygja aðeins úr sér og reyna að ná skjálftariðunni úr sér,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson í samtali við fréttastofu.

„Því að fólk var hér eins og það væri að stíga ölduna eftir allan hamaganginn í Grindavík í gær. Það þakkar svolítið fyrir það að vera með fast land undir fótum eins og þau tala um.“
Eins og fram hefur komið opnaði Rauði krossinn þrjár fjöldahjálparstöðvar í gærnótt, á Selfossi, Reykjanesbæ og í Kópavogi. Rauði krossinn reynir að veita eins mikla aðstoð og hægt er, húsaskjól, sálrænan stuðning og gerir það sem þarf, að sögn Gylfa Þórs.
Þannig að það er nokkur uggur í fólki?
„Já í rauninni og það er ekkert launungamál. Þetta fór illa í fólk eins og gefur að skilja og sem betur fer þá komust þau hingað inn.“