Innlent

Vilja leggja bann á fisk­eldi í opnum sjó­kvíum: „Þetta er bara ó­geðs­legt“

Bjarki Sigurðsson skrifar
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. 
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.  vísir/bjarni

Þingmenn Pírata hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að banna eigi fiskeldi í opnum sjókvíum. Flutningsmaður tillögunar segir eldið vera dýraníð og að það valdi gríðarlegum skemmdum á vistkerfum landsins.

Þingmenn Pírata auk eins þingmanns Viðreisnar hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um bann við fiskeldi í opnum sjókvíum. Vilja þingmennirnir að samhliða tillögunni verði sköpuð atvinnutækifæri í þeim byggðarlögum sem byggja afkomu sína á sjókvíaeldinu.

Halldóra Mogensen er flutningsmaður tillögunnar. Hún segir það vera ekkert nema óskhyggja að halda að sjókvíaeldi valdi engum skaða fyrir íslenskt vistkerfi.

„Þetta er náttúrulega bara hrikalegt. Ég vona það að fólk sjái þetta og átti sig á því hversu hræðileg meðferðin er. Við verðum líka að átta okkur á því að þetta eru sleppislys, erfðamengun, músaplága, eitranir, sjúkdómar og ill meðferð á eldisdýrum. Þetta er engin undantekning þegar kemur að þessum bransa. Þetta er hluti af þessum iðnaði, þetta er viðskiptamódelið,“ segir Halldóra.

Hún kallar starfsemina dýraníð og skemmdarverk á vistkerfum landsins. Galið væri að halda henni áfram.

„Ef við virkilega hugsum um þetta, þá er þetta bara ógeðslegt og við ættum ekki einu sinni að vilja að borða þennan mat. Við erum að fá frétt eftir frétt um hvað þetta er hræðilega skaðlegt líka bara fyrir náttúruna og vistkerfi landsins. Við hljótum að komast að þeirri niðurstöðu að það þurfi að banna þetta. Enda er tæknin til staðar til að loka sjókvíunum eða færa þetta upp á land. Voða skrítið að halda þessu áfram,“ segir Halldóra.


Tengdar fréttir

„Ég ætlaði varla að trúa þessu“

Um milljón eldislaxa hafa drepist eða verið fargað í kvíum Arctic Fish og Arnarlax í Tálknafirði. Náttúruverndarsinni sem skoðaði kvíarnar segir alla laxa ofan í kví félagsins í Tálknafirði hafa verið lúsétna. Hún hafi varla trúað eigin augum. 

Ó­venju mikið af lús á Vest­fjörðum

Óvenjuslæm staða er hvað varðar laxalús á í eldiskvíum á Vestfjörðum. Matvælastofnun (MAST) hefur heimilað lyfjameðhöndlanir á átta eldissvæðum vegna þessa. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×