Innlent

Nýtt nafn á nýju fangelsi: Enginn fer „á Hraunið“

Margrét Björk Jónsdóttir og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Páll Winkel fangelsismálastjóri fagnar byggingu á nýju fangelsi og segir húsakostinn á Litla-Hrauni ömurlegan.
Páll Winkel fangelsismálastjóri fagnar byggingu á nýju fangelsi og segir húsakostinn á Litla-Hrauni ömurlegan. Vísir/Arnar

Nýtt fangelsi sem verður byggt við hliðina á Litla-Hrauni fær nýtt nafn. Fangelsismálastjóri segir löngu tímabært að loka „ömurlegri“ aðstöðu á Litla-Hrauni.

Stórtækar breytingar í fangelsismálum voru kynntar á blaðamannafundi á Litla Hrauni í morgun. Í fyrsta lagi stendur að byggja nýtt fangelsi við hliðina á Litla-Hrauni og er undirbúningur að framkvæmdum þegar hafinn. 

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, segir áætlaðan kostnað metinn á um sjö milljarða króna. Hagkvæmara sé að byggja nýtt en að fara í endurbætur. „Það er niðurstaðan að húsakosturinn hér sé í þannig ásigkomulagi að það borgi sig ekki að setja svona mikið fé í endurbætur.“

Hún bendir á að núverandi húsnæði hafi upphaflega verið byggt sem sjúkrahús og að í gegnum árin hafi viðbyggingar verið hnýttar við. Páll Winkel fangelsismálastjóri segir enga heildarhugsjón á bak við Litla-Hraun og það sé í raun mjög óhentugt húsnæði.

„Húsnæðið er kalt, þú getur ekki komist hjá því að hitta hina fangana ef þú býrð hérna. Það er erfitt að sinna meðferðarstarfi af því það eru fíkniefni í boði út um allt þegar þau koma inn. Vinnuaðstaða fangavarða; þeir kalla það tunnuna af því það er gluggalaust rými þar sem er ekki salreni. Þetta er bara gamalt,“ segir Páll.

„Umhverfið hér er ömurlegt, aðstaðan er til skammar þannig að þetta er frábært fyrir alla sem hingað koma hvort sem það eru vistmenn eða starfsmenn.“

Nýtt fangelsi verður við hliðina á Litla-Hrauni og framkvæmdir hefjast strax. Reynslan við byggingu Hólmsheiðar er sögð munu koma að góðu gagni og á umhverfið í nýju fangelsi að vera sem minnst þrúgandi. Ekki liggur fyrir hvað verður um Litla-Hraun en þar verða frelsissviptir að minnsta kosti ekki vistaðir. Nýtt fangelsi fær nýtt nafn og segir fangelsismálastjóri að mögulega verði hugmyndasamkeppni um nafngiftina.

„Það er greipt inn í huga þjóðarinnar að það að „fara á Hraunið“ sé botn tilverunnar. Nú verður bara ekkert Hraun. Við erum að fara byggja nýtt og betra fangelsi og þá verður ekkert Litla-Hraun.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.