Í fundargerð bæjarstjórnar Snæfellsbæjar kemur fram að henni hafi borist bréf frá öldungaráði varðandi líkhús sveitarfélagsins. Húsið er staðsett við Hjarðartún í Ólafsvík, við hliðina á bókasafninu.

„Bæjarstjórn telur að ekki sé forsvaranlegt að fara í fjárfrekar framkvæmdir við húsið á meðan ekki er fyrirséð hver, eða hverjir, munu koma til með að sjá um þá þjónustu sem þarf að veita þar. Bæjarstjórn bendir á að þessa þjónustu er hægt að sækja í Stykkishólm,“ segir í svari bæjarstjórnar við bréfinu.
Í samtali við fréttastofu segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, að bréfið hafi borist þeim vegna þess að óskað var eftir því að veitt væri fjár til endurnýjunar á húsnæðinu en sveitarfélagið á húsnæðið þrátt fyrir að sóknarnefndirnar á svæðinu reki líkhúsið.
Umsjónarmaður á leið burt
Hins vegar er kominn upp sá vandi að sá aðili hjá sóknarnefndunum sem sá um líkhúsin er á leið úr Snæfellsbæ. Enn sem komið er er ekki búið að finna neinn til að taka við af honum.
„Við viljum bara sjá að það ætli einhver að þjónusta þetta. Að það sé einhver fullvissa fyrir því að ef við förum í einhverjar framkvæmdir á húsinu, það kostar einhverjar milljónir. Viljum ekki að þegar við erum búin að laga það að það komi í ljós að enginn vilji sjá um þjónustuna. Þá var ekki sniðugt að fara í framkvæmdirnar,“ segir Kristinn.
Viðkvæmt mál
Enginn hefur lýst yfir áhuga sínum á að taka við rekstrinum og því er boltinn enn hjá sóknarnefndunum.
„Á Vestfjörðum, þar sem ég er fæddur og uppalinn, var líkhús í hverri einustu byggð. En í dag er bara á Ísafirði. Þetta er bara breyting, þetta er viðkvæmt mál og ég geri mér alveg grein fyrir því að fólk vilji hafa þjónustuna í nærsamfélaginu en það verður að fara einhver til að þjónusta,“ segir Kristinn.
Stígi enginn fram mun starfsemin að öllum líkindum leggjast niður. Þá þurfa íbúar sveitarfélagsins reiða sig á líkhúsið í Stykkishólmi.