Það eru alltaf fleiri og fleiri, sem vilja gerast býflugnabændur og meðal þeirra eru þau Eva Bjarnadóttir og Peter Ålander, sem búa í Fagurhólsmýri í Öræfum í Sveitarfélaginu Hornafirði. Þau eru með býflugnabúin sín á skemmtilegum stað í fallegum trjálundi.
Búin eru sjö og flugurnar eru um 40 þúsund í þeim.
„Þetta er bara rosalega gaman því maður kemst svo nálægt náttúrunni, það er ekki annað. Það fer allt sumarið í að horfa eftir blómum, það er mjög gaman. Svo fær maður líka eitthvað af hunangi á haustin, sem er bara mjög fínt,” segir Peter.

Ertu ekkert hræddur við flugurnar?
„Nei, það er ekkert til að vera hræddur við. Þær geta jú stungið mann en það er þá vegna þess að maður gerir eitthvað vitlaust,“ bætir hann við.
Það vekur athygli hvað flugurnar hjá Evu og Peter eru rólegar og yfirvegaðar, allar svo stilltar og prúðar.
„Þær standa sig bara mjög vel á Íslandi. Ég er líka með býflugur í Meðallandi en þar eru fimm bú. Við erum þá með tólf bú, það gengur mjög vel,“ segir hann.

Peter segir hunangið frá flugunum einstaklega gott enda sé það vinsælt á heimilinu og svo selji þau eitthvað af því líka.
„Þær eru mjög samviskusamar. Þær fara út um leið og sólin lætur sjá sig,” segir Peter.
Það er augljóst að Peter hefur mjög mikinn áhuga á flugunum og vinnunni í kringum þær.
„Já, já, ég bíð bara alltaf eftir því að hann breytist í býflugu,“ segir Eva hlæjandi.
