Innlent

„Ömur­legur endir á góðu ferða­lagi“

Bjarki Sigurðsson skrifar
Frá vettvangi slyssins á þjóðvegi eitt sunnan Blönduóss í morgun.
Frá vettvangi slyssins á þjóðvegi eitt sunnan Blönduóss í morgun. Vísir

Enginn slasaðist alvarlega þegar rúta með rúmlega tuttugu starfsmönnum Akureyrarbæjar valt snemma í morgun skammt frá Blönduósi. Þjónustustjóri segir þetta mikið áfall fyrir fólkið en flestir voru sofandi þegar atvikið átti sér stað.

Rútuslysið varð þegar rúta á vegum SBA-Norðurleið valt um þrettán kílómetra suður af Blönduósi á sjötta tímanum í morgun. Um borð voru tuttugu og tveir starfsmenn nokkurra þjónustukjarna hjá Akureyrarbæ.

Höfðu starfsmennirnir verið í skemmtiferð í Portúgal og var rútan að ferja þá aftur heim frá Keflavíkurflugvelli. Sjö voru fluttir til Reykjavíkur vegna slyssins en þeir sem voru minna slasaðir voru fluttir á sjúkrahúsið á Akureyri.

Karólína Gunnarsdóttir, þjónustustjóri á velferðarsviði Akureyrarbæjar, segir þetta hafa verið mikið áfall fyrir fólkið.

„Fólk er sem betur fer ekki mikið slasað en þetta er auðvitað áfall að lenda í svona. Þetta voru erfiðar aðstæður. Þannig fólk þarf bara að fá sinn tíma núna og ná sér. Jafna sig, eftir svona byltu þá er þetta auðvitað bara erfitt,“ segir Karólína.

Karólína ræddi við nokkra af starfsmönnunum í húsnæði Rauða krossins á Akureyri. Þar fengu starfsmennirnir og þeirra fjölskyldur áfallahjálp. Hún segir það þurfa að taka vel utan um starfsmennina.

„Þeir sem komu, ég held að þetta hafi verið mjög gott fyrir þá. Þarna var fullt af fólki til að styðja við þau og þetta var bara mjög gott. Svo þurfum við bara að halda áfram að styðja við þetta fólk þegar það kemur fram í næstu viku og fólk fer betur að átta sig á þessu öllu saman,“ segir Karólína. „Þetta var bara búið að vera mjög góð ferð og já, ömurlegur endir á góðu ferðalagi. Þetta er flottur hópur sem var búinn að eiga góðar stundir þarna úti. þannig þetta var bara mjög sorglegt.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×