Innlent

Ís­firðingar opnir fyrir sam­einingu

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Norðurfirði á Ströndum.
Frá Norðurfirði á Ströndum. Vísir/Egill

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar segir sveitarfélagið opið fyrir viðræðum um sameiningu við Árneshrepp. Hreppsnefnd Árneshrepps lýsti í síðasta mánuði yfir vilja til viðræðna við önnur sveitarfélög um sameiningu og óskaði jafnframt eftir að fá að fylgjast með umræðum í nágrannasveitarfélögum.

Árneshreppur á Ströndum er eitt fámennasta sveitarfélag landsins og töldu íbúar þess 42 í upphafi árs 2022.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fundaði í gær þar sem tekið var jákvætt í ályktun hreppsnefndar Árneshrepps um vilja til sameiningar við önnur sveitarfélög.

„Ísafjarðarbær er opinn fyrir viðræðum um sameiningu sveitarfélaganna, enda liggja sveitarfélögin saman, þótt í vegleysu sé,“ segir í bókun bæjarráðs.

Árneshreppur á Ströndum, merkt gult á kortinu, er eitt fámennasta sveitarfélag landsins.Samband.is

Í ályktun hreppsnefndar Árneshrepps frá 9. ágúst síðastliðinn sagði að mikil umræða hefði átt sér stað um sameiningu sveitarfélaga síðustu ár.

„Ýmsir möguleikar hafa verið skoðaðir sem þó hafa ekki enn leitt til niðurstöðu í stærra samhengi. Vegna fámennis sveitarfélagsins hefur Árneshreppur ekki haft frumkvæði að viðræðum við önnur sveitarfélög. Hreppsnefnd Árneshrepps samþykkti einróma á fundi sínum að lýsa yfir vilja til viðræðna við önnur sveitarfélög og jafnframt óska eftir að fá að fylgjast með umræðum í nágrannasveitarfélögum,“ sagði í ályktuninni.

Árneshreppur liggur að Hornströndum sem tilheyra Ísafjarðarbæ í norðri, Strandabyggð í vestri og suðri og Kaldrananeshreppi í suðri. Hólmavík er stærsti bærinn í Strandabyggð og Drangsnes stærsti þéttbýliskjarninn í Kaldrananeshreppi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×