Lífið

„Erfiðast að viður­kenna að ég þyrfti hjálp“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar í Eyjum hefur marga fjöruna sopið.
Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar í Eyjum hefur marga fjöruna sopið. Vísir/Vilhelm

Páll Magnús­son fyrr­verandi út­varps­stjóri og þing­maður segist með tímanum hafa vanist því að vera þekktur á Ís­landi. Hann segist lengi hafa gert sér grein fyrir því að hann væri alkó­hól­isti áður en hann leitaði sér að­stoðar.

Páll er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Hann segist í áraraðir hafa ætlað að sigrast á áfengisvanda af eigin rammleik, áður en hann gafst loks upp.

„Það var mér í sjálfu sér ekki feimnismál að opna á alkohólismann á sínum tíma. En það að taka ákvörðunina um að fara í meðferð var ekki auðvelt og mér stóð beygur af því að fara í meðferð á Íslandi. Ég hugsaði með mér að það myndu allir þekkja mig inn á Vogi og að það myndi enda í fjölmiðlum. Þannig að niðurstaða mín var að fara í meðferð í Bandaríkjunum sumarið 2001.“

Páll segir að sér hafi farið að þykja vænt um það að vera þekktur á Íslandi. Vísir/Vilhelm

Páll segir rúm tíu ár hafa liðið frá því að hann áttaði sig á því að hann væri alkóhólisti og þar til hann raunverulega viðurkenndi fyrir sjálfum sér að hann gæti ekki tekist á við vandann einn.

„Það samræmdist ekki sjálfsmyndinni. Mér fannst ég vera maður sem gæti hætt að drekka af eigin rammleik og ég reyndi það árum saman. Ég man að í fluginu frá Íslandi út í meðferðina voru upplýsingar um flugvélina, hvenær hún hafi verið búin til og hvað hún tæki marga farþega. Ég fór að reikna út hve margir hafi flogið með þessarri tilteknu flugvél frá upphafi og ég fann loks út töluna sem voru einhverjar milljónir farþega. 

Ég hugsaði: „Af öllum þessum milljónum manna hlýt ég að vera mesti auminginn!“

Páll flutti heldur óhefðbundna ræðu á Alþingi árið 2021 þar sem hann hrósaði fyrir vel unnin þingstörf.

Páll segir að á þessum tímapunkti hafi hann enn ekki áttað sig á því að í uppgjöfinni felist sigurinn. Hann segist hafa ákveðið í meðferðinni að hann myndi ekki reyna að að halda neinu leyndu þegar hann kæmi heim.

Fundist galið að Páll hafi farið yfir

Páll segir að hann hafi lært að þykja vænt um það að vera þekktur á Íslandi. Honum hafi fundist það mjög spennandi þegar hann var ungur og enn hégómagjarn.

„Svo þegar hégómaparturinn fór úr þessu fannst mér það óþægilegt, en svo þegar óþægindaparturinn fór í burtu fór mér aftur að finnast það gaman og ég hef bara gaman að því ef fólk þekkir mig og vill tala við mig.“

Páll er einn reyndasti fjölmiðlamaður Íslandssögunnar og spannar ferill hans í fjölmiðlum áratugi, bæði sem fréttamaður, fréttastjóri og útvarpsstjóri. Honum telst til að hann hafi á einhverjum tímapunkti ráðið helming allra starfandi frétta-og blaðamenn á Íslandi.

Páll og Edda Sif dóttir hans rifjuðu upp ýmislegt í samtali við Eddu Andrésdóttur í afmælisþætti Stöðvar 2 í fyrra.

„Þetta er auðvitað orðinn langur ferill, bæði hjá einkareknum fjölmiðlum og hjá Ríkisútvarpinu. Ég fékk tilboð um að búa til fréttastofu Stöðvar Tvö nokkrum mánuðum áður en hún fór í loftið. Ég var í fínni stöðu á RÚV á þeim tíma og mörgum fannst galið að ég hafi samþykkt að fara yfir, enda öryggið ekkert.“

Páll segist hafa hugsað þessa ákvörðun eins og hann hugsi margt í sínu lífi. Að líklega myndi hann sjá meira eftir því að hafa ekki gripið tækifærið. Upphafsárin á Stöð 2 hafi verið mikið ævintýri en líka kaotísk.

„Stofnun fréttastofu Stöðvar 2 var líklega það besta sem gat gerst fyrir RÚV. Fram að þessum tíma höfðu fréttir verið býsna kurteisar við valdhafa, en það breyttist þarna. Þegar ég byrjaði á RÚV var ekkert langt síðan fréttamenn hættu að þéra ráðherra og þá unnu þar enn fréttamenn sem mundu eftir því þegar bílstjóri ráðherra var sendur með spurningalista á undan ráðherranum sem fréttamenn áttu að spyrja þegar viðtalið yrði.“

Sagði eigandanum að hann mætti reka sig

Hann segir vinnubrögð í sjónvarpsfréttum hafa breyst með tilkomu Stöðvar 2. Eitt dæmi hafi verið þegar fréttastofan sagði fréttir af veislu Jóns Baldvins Hannibalsonar og Bryndísar Schram, þar sem áfengið var keypt á sérstökum ráðherrakjörum.

„Eigendur Stöðvar 2 vildu hlutast til um fréttaflutninginn og myndbirtingar úr veislunni. Ég sagði eigandanum að hann mætti reka mig, en á meðan ég væri fréttastjóri réði ég vinnubrögðunum. Á endanum var sjálfstæði fréttastofunnar virt. Á þessum tíma var mikið um átök um sjálfstæði ritstjórna, sem manni finnst minna um í dag.“

Páll hafði á tímabili ráðið helming fréttafólks á Islandi.Vísir/Vilhelm

Páll hefur þurft að taka marga slagi bak við tjöldin í gegnum tíðina sem fréttastjóri og útvarpsstjóri. Hann segist alltaf hafa verið tilbúinn að standa á sannfæringu sinni þegar kemur að blaðamennsku.

„Ég tók alltaf slaginn fyrir prinsippin þegar kemur að blaðamennsku. Bæði á Stöð 2 og RÚV. Sumir sögðu við mig á tímabili að ég hafi alltaf tekið ófriðinn þó að friður væri í boði. Það er kannski eitthvað til í því. Maður á ekki að hræðast átök þegar aðstæður krefjast þess, en á ákveðnu tímabili var ég kannski aðeins of átakasækinn. En ég held að með árunum hafi mér tekist að stilla þetta af.“

Hellti sér yfir dagskrárgerðarfólk

Páll segir að í grunninn finnist sér að fólk eigi að vera tilbúið að taka slaginn þegar kemur að grundvallaratriðum og prinsippum. Hann hafi haft það sem reglu að ósáttir ráðamenn mættu hringja í sig þegar hann var útvarpsstjóri.

Eftirminnilegt er þegar Páll lét Helga Seljan heyra það árið 2013. Þá hafði Páll farið í niðurskurð hjá RÚV og sagt upp fjölda manns.

„En það þýddi alls ekki að ég myndi fara eftir ráðleggingum þeirra. Mér er það enn minnistætt þegar þungavigtarmaður í ákveðnum þingflokki mætti inn á gólf á RÚV og hellti sér þar yfir dagskrárgerðarfólk út af einhverju sem honum fannst hlutdrægni. Það var hringt í mig þegar þetta var að gerast og ég mætti á svæðið og sagði honum að ég bæri ábyrgðina ef hann væri ósáttur og hann ætti þá að tala við mig. Hann hélt áfram hrópum og köllum og að úthúða fólki og á endanum þurfti ég að vísa honum úr húsinu. Þetta endaði nánast með líkamlegum átökum.“

Páll var útvarpsstjóri frá árinu 2005 til 2013. Vísir

Hann segist hafa fundið mikla breytingu eftir nokkra mánuði í starfi. Smám saman hafi verulega dregið úr því að stjórnmálamenn væru í því að reyna að hafa áhrif á fréttaflutning Ég fann mikla breytingu eftir nokkra mánuði í starfinu og smám saman dró verulega úr því að stjórnmálamenn væru að reyna að hafa áhrif á fréttaflutninginn.“

Páll þekkir vel bæði stöðu einkarekinna fjölmiðla og Ríkisútvarpsins. Hann segir að RÚV eigi að fara af auglýsingamarkaði og það sé lýðræðinu mikilvægt að hafa einkarekna fjölmiðla sem geta starfað vel.

„Staða einkarekinna fjölmiðla á Íslandi hefur líklega aldrei verið jafnslæm og í dag og sannarlega aldrei jafnslæm í samanburði við Ríkisútvarpið. RÚV er núna með vísitölutryggðar tekjur og svo aukast tekjur í hlutfalli við fjölgun greiðenda, sem fjölgar alltaf. Þannig að það eru bæði belti og axlabönd. Á sama tíma blæðir einkareknum fjölmiðlum út. Það liggur í augum uppi að RÚV á að fara af auglýsingamarkaði. Hafi það einhvern tíma verið æskilegt er það beinlínis lífsnauðsynlegt núna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×