Innlent

„Er það ósk allra að heil­brigðis­­starfs­­fólk fari í gegnum svona ferli?“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ásta Kristín Andrésdóttir fór að lokum með skaðabótamál sitt á hendur ríkinu fyrir Hæstarétt.
Ásta Kristín Andrésdóttir fór að lokum með skaðabótamál sitt á hendur ríkinu fyrir Hæstarétt. Vísir/Vilhelm

Ásta Kristín Andrés­dóttir, með­stjórnandi Heilsu­hags, vill vekja fólk til um­hugsunar um það hve flókin at­vik geta verið sem upp koma á spítala og að yfir­leitt sé aldrei neinum einum um að kenna. Hún kallar eftir breytingum á verk­ferlum lög­reglu í slíkum málum og vill að hlut­laus nefnd fari yfir slík mál áður en lög­regla taki þau til rann­sóknar.

Þetta kemur fram í að­sendri grein Ástu sem birtist á Vísi í kvöld. Til­efnið eru fréttir af því að lög­regla rann­saki and­lát á Land­spítalanum fyrr í mánuðinum.

Árið 2015 var Ásta Kristín Andrés­dóttir á­kærð fyrir mann­dráp af gá­leysi og fyrir brot á hjúkrunar­lögum á þeim grund­elli að hún hefði gleymt að tæma loft úr kraga barkar­aufar­rennu þegar hún tók sjúk­ling úr öndunar­vél 3. októ­ber 2012. Ásta var sýknuð af á­kærunni og fór hún fram á miska­bætur vegna málsins í kjöl­farið.

Segist hafa endur­upp­lifað málið

Í grein sinni á Vísi segist Ásta vona að haldið sé vel utan um alla þá sem tengist and­látinu. Hún segist vona að teymið á Land­spítalanum sjái að það sé ljós við enda gangsins, það sjáist ekki strax en það muni koma.

„Ég fór í endur­upp­lifun eftir þessar fréttir um at­vik á skurð­stofu. Það ristir dá­lítið djúpt vegna þess að þetta var mín starfstöð í 12 ár. Og allir sem vinna þar eru með gull af hjarta, mann­gæsku, eru öryggis­með­vituð, ein­stak­lega fag­lega fær og vinna sína vinnu af heilindum.“

Hún segir sorgina og sektar­til­finninguna vegna at­vika sem gerist í heil­brigðis­kerfinu fylgja öllum sem komi að. Sektar­til­finningin geti verið yfir­þyrmandi.

Kallar eftir úr­bótum

„Ég kalla eftir úr­bótum. Ég kalla eftir gegn­særri upp­lýsinga­gjöf til að­stand­enda, heil­brigðis­starfs­fólks og al­mennings. Það eru ekki allir sam­mála um að svona lög­gjöf eigi að fara í gegn. En það er meiri­hluti sem er sam­mála og ég held að þessi lög­gjöf muni gagnast bæði að­stand­endum og heil­brigðis­starfs­fólki.“

Ásta spyr hvað sé hægt að gera öðru­vísi þegar slík at­vik komi upp, hvernig verði hægt að hlúa að að­stand­endum og lofa þeim upp­lýsingum og heiðar­leika og hvernig sé hægt að hlúa að við­komandi sak­borningi, sem eigi ó­trú­lega erfitt. Hún segist hafa viljað hverfa þegar hún hafi verið sjálf í sömu stöðu.

„Hvernig geta rann­sóknar­lög­regla, Land­læknis­em­bættið og Há­skóla­sjúkra­húsið betr­um­bætt þetta ferli, þannig að málið endi ekki með ó­sköpum fyrir heil­brigðis­starfs­manninn?“

Horfa má á frétt Stöðvar 2 frá árinu 2015 þegar Ásta var sýknuð hér fyrir neðan. 

Þróaði með sér á­falla­streitu­röskun

Ásta segist hafa þróað með sér al­var­lega á­falla­streitu­röskun sem hún muni þurfa að takast á við út lífið, enda hafi hún verið venju­leg hús­móðir í Garða­bæ sem allt í einu var lent í því að vera sak­borningur í saka­máli við að vinna vinnuna sína.

Hún kallar eftir því að komið verði upp verk­lagi þar sem tekist verði á við líðan heil­brigðis­starfs­manns í slíkum að­stæðum.

„Og ég hef sagt þetta áður. Ég var bara venju­leg hús­móðir í Garða­bæ, sem var allt í einu lent í því að vera sak­borningur í saka­máli. Og ég var bara að vinna vinnuna mína. Er það ósk allra að heil­brigðis­starfs­fólk fari í gegnum svona ferli?“

Hún segir að sig hafi langað að hverfa þegar hún hafi verið í þessum sporum. Van­líðanin hafi fylgt henni fimm árum eftir at­burðina.

Vill að mann­legt eðli sé viður­kennt

„Mér finnst vanta verk­lag milli rann­sóknar­lög­reglu, LSH og Land­læknis um hvernig sé tekið á þessum málum, þannig að það fari enginn heim með sektar­kennd sem getur valdið öðru dauðs­falli. Já ég segi það opið, því ég var þar - langaði að hverfa. Og var búin að gera á­ætlun um það hvernig og hve­nær. Ég var búin að gefa mér leyfi á á­kveðnum tíma að kveðja heiminn, ef ég væri enn í þessari gríðar­legu van­líðan sem ég var í. Og nota bene, það var 5 árum eftir sýknu­dóminn minn.“

Ásta segir að sér finnist það vanta að mann­legt eðli sé viður­kennt. Að fólk sem lendi í slíkum at­vikum eigi mjög auð­velt með að kenna sér um.

Rann­sókn lög­reglu ætti að vera skil­virkari, ná­kvæmari og lýsa að­stæðum eins og þær eru. Ásta segist vilja vekja fólk til um­hugsunar um þessi mál og hve flókin þau geti verið.

„Ég kalla eftir breytingum á verk­ferlum lög­reglu í svona málum. Ég kalla eftir að lög­reglan sýni fram á að hún rann­saki málin í þaula, reyni að skilja það sem er læknis­fræði­lega flókið. Og helst myndi ég vilja hlut­lausa nefnd sem færi yfir at­vikin áður en lög­regla tekur til rann­sóknar.“

Grein Ástu í heild sinni á Vísi. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×