Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, staðfestir í samtali við Vísi að lögregla hafi verið kölluð til vegna atviks á bílaplani fyrir utan verslun ÁTVR á Dalvegi. Hún segir starfsmenn ekki hafa orðið vitni að atburðarásinni en segir viðskiptavin hafa hringt á lögreglu.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu óskaði lögregla eftir sjúkrabíl á vettvang. Einn sjúkrabíll var sendur.
Ekki hafa frekari upplýsingar fengist um málið frá lögreglu en í dagbók lögreglunnar sem send var út í kvöld segir að lögreglu hafi verið tilkynnt um átök í verslun í hverfi 201.
Tveir hafi verið færðir í fangaklefa vegna málsins. Sjónarvottur sem hafði samband við fréttastofu vegna málsins segir að viðskiptavinir hafi ekki þorað út úr versluninni á meðan áflogunum stóð.
Veistu meira um málið? Vísir tekur við öllum ábendingum á
frettir@stod2.is. Fullum trúnaði er heitið.