Innlent

Launa­munur kynjanna á fjár­mála­markaði 26 prósent

Árni Sæberg skrifar
Karlinn á þessari mynd er sennilega með 26,2 prósent hærri laun en konan.
Karlinn á þessari mynd er sennilega með 26,2 prósent hærri laun en konan. Morsa Images/Getty

Óleiðréttur launamunur karla og kvenna var 9,1 prósent árið 2022 og dróst saman frá fyrra ári úr 10,2 prósent. Munurinn er mestur í fjármála- og vátryggingastarfsemi, 26,2 prósent, en minnstur í rafmagns- gas og hitaveitum eða 4,1 prósent.

Þetta segir í nýútgefnum útreikningum Hagstofunnar á óleiðréttum launamun karla og kvenna á síðasta ári.

Þar segir að Launamunur hafi aukist eftir aldri og munurinn verið 0,7 prósent á meðal 24 ára og yngri, 8,8 prósent í aldurshópnum 35 til 44 ára og 16,3 prósent á meðal 55 til 64 ára.

Launamunur karla og kvenna eftir starfsstétt hafi verið á bilinu –0,5 prósent hjá skrifstofufólki og 20,5 prósent á meðal tækna og sérmenntaðs starfsfólks.

Kynbundin skipting í störf útskýrir muninn

Á vef Hagstofunnar segir að ein helsta skýring þess launamunar sem er til staðar á Íslandi sé kynbundin skipting í störf og atvinnugreinar, samanber rannsókn á launamun karla og kvenna sem kom út árið 2021. 

Þar komi fram að um 43 kvenna kvenna sem voru á vinnumarkaði árið 2019 störfuðu hjá hinu opinbera en einungis um 15 prósent karla. Launamunur hafi verið 13,5 prósent á almennum vinnumarkaði, 9,1 prósent hjá starfsfólki ríkisins og 6,1 prósent á meðal starfsfólks sveitarfélaga.

Þá segir að launadreifing eftir kyni fyrir allan vinnumarkaðinn sýni áhrif kynskipts vinnumarkaðar þar sem hlutfallslega fleiri konur eru í lægra launuðum störfum en karlar.

Í grafinu hér að neðan má sjá launamun eftir starfsstéttum:



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×