Innlent

Þúsundir sígarettu­stubba ráku upp í fjöru: „Þetta er al­gjört ógeð“

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Líklega hefur stubbunum verið sturtað úr skipi.
Líklega hefur stubbunum verið sturtað úr skipi. Svanbjörg Pálsdóttir

Ófögur sjón blasti við Svanbjörgu Pálsdóttur og öðrum sem áttu leið sína um fjöruna skammt frá Eskifirði í dag. Þúsundir sígarettustubba lágu í fjörunni.

„Þetta er algjört ógeð,“ segir Svanbjörg sem er brottfluttur Eskfirðingur í heimsókn í gamla heimabænum. Hún ákvað ásamt manni sínum að fara í fjöruferð skammt frá bænum, á fallegan stað sem henni og fjölskyldu hennar þykir mjög vænt um. Þá blasti ófögnuðurinn við. Þúsundir sígarettustubba dreifðir um fjöruna.

Svanbjörg segir hræðilegt að horfa upp á þetta og þeim hafi brugðið mjög. Um eiginlegt mengunarslys sé að ræða. Þarna hafi meðal annars verið barn að leik.

Líklegast sturtað úr skipi

Aðspurð um hvað hún telji að hafi gerst segir hún líklegast að stubbunum hafi verið sturtað úr einhverju skipi. Hún viti þó ekki úr hvaða skipi eða hvers konar. Að minnsta kosti sé ljóst að stubbunum hafi skolað upp í fjöruna, þeir eigi ekki upprunann á landi.

„Hér í firðinum sigla skip á vegum fiskeldisins og svo koma reglulega flutningaskip. Það eru ekki mörg skemmtiferðaskip sem koma til Eskifjarðar,“ segir Svanbjörg um skipaumferðina á staðnum.

Hún hefur nú þegar sent erindi með ljósmyndum til sveitarfélagsins Fjarðabyggðar. Hún taldi rétt að bærinn vissi af þessu. Erindið var hins vegar sent eftir lokun þannig að hún var ekki enn búin að fá nein viðbrögð þegar Vísir náði af henni tali.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×