Sport

„Við getum talað um allt og það er sjaldgæft“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir eru miklar vinkonur og líka í miðri keppni.
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir eru miklar vinkonur og líka í miðri keppni. @nobull

Íslensku vinkonurnar og tvöföldu heimsmeistararnir kunna að skemmta sér og öðrum á keppnisgólfinu og vinskapur þeirra fer ekkert á milli mála þegar þær keppa á stærsta sviði CrossFit íþróttarinnar.

Katrín Tanja Davíðsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir eru báðar meðal þrettán hraustustu CrossFit kvenna heimsins í ár en þetta varð ljóst eftir að keppni á heimsleikunum lauk um Verslunarmannahelgina.

Katrín Tanja endaði frábærlega og náði sjöunda sætinu en Anníe Mist gaf aðeins eftir í lokin og varð að sætta sig við þrettánda sætið.

Faðmlag Anníe Mistar og Katrínar Tönju eftir dramatískan endi á níundu grein heimsleikanna var án efa ein af fallegustu stundum helgarinnar.

Dave Castro, einn af þeim háttsettustu hjá CrossFit samtökunum, fjallaði sérstaklega um það á sinni síðu, það gerði Morning Chalk up vefurinn sem og bæði síður heimsleikanna og ESPN sem sýndi beint frá heimsleikunum.

Anníe Mist og Katrín Tanja voru þarna í kapphlaupi við tímann að ná gildri lyftu áður en tíminn rann út. Anníe hafði mistekist að koma upp 86 kílóum í snöruninni en náði að bæta úr því rétt áður en tíminn kláraðist.

Katrín Tanja náði þá líka að lyfta 84,3 kílóum í snörun áður en þær fóru síðan í jafnhendinguna og kláruðu greinina af krafti.

Eftir hana föðmuðust þær kátar eins og bestu vinkonurnar sem þær eru. Anníe Mist var spurð út í þetta eftir greinina.

„Það var svo gott að hafa Kat þarna með mér. Það skiptir svo miklu máli að eiga hana sem bestu vinkonu. Hún veit um og þekkir allt á eigin skinni sem þú þarft að ganga í gegnum í æfingunum, bæði líkamlega og andlega,“ sagði Anníe Mist.

„Við getum talað um allt og það er sjaldgæft. Ég tek það ekki sem sjálfsögðum hlut. Það er mjög sérstakt,“ sagði Anníe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×