Innlent

Mikið fjör á hundrað ára af­mæli Vatna­skógar

Sólrún Dögg Jósefsdóttir og Margrét Björk Jónsdóttir skrifa
Á morgun verður sérstök afmælisdagskrá á Sæludögum í tilefni afmælisins.
Á morgun verður sérstök afmælisdagskrá á Sæludögum í tilefni afmælisins. Stöð 2

Sumarbúðir KFUM&K í Vatnaskógi eru hundrað ára um þessar mundir og þeim miklu tímamótum er fagnað á hátíðinni Sæludögum, sem haldin er við sumarbúðirnar ár hvert um Verslunarmannahelgina.

Ögmundur Ísak Ögmundsson, verkefnastjóri Sæludaga, fór yfir hátíðarhöld helgarinnar í Kvöldfréttum Stöðvar 2. „Við erum að slá saman hundrað ára afmæli sumarbúðanna í Vatnaskógi og Sæludögum. Hér um helgina verður mikil dagskrá og er búið að vera síðan á fimmtudaginn,“ segir Ögmundur. 

Á dagskrá Sæludaga má finna fjölbreytta viðburði en Ögmundur segir Leitina að gáfuðustu fjölskyldunni vera sinn uppáhaldslið í dagskránni. „Hann verður alltaf vinsælli og vinsælli og fjölskyldur keppast um að hreppa titilinn. Það er alltaf mjög mikil stemning, og hún klárast núna í dag þannig að úrslit liggja fyrir í kvöld þannig að það verður mjög gaman að fylgjast með því áfram.”

Fjöldi gjafmildra velunnara

Á morgun fer síðan afmælishátíðin sjálf fram. „Það verður sérstök afmælisdagskrá á morgun sem byrjar um þrjúleytið þegar Gunni og Felix koma á staðinn. Og um kvöldið ætlum við að vera með kvöldvöku þar sem KK og fleiri koma fram og svo ætlum við að bjóða gestum Sæludaga upp á afmælisköku í tilefni afmælisins,“ segir Ögmundur. 

Þá segir hann mikið fjör nú þegar hafa verið, Páll Óskar hafi troðið upp í gærkvöldi og í kvöld muni Jón Jónsson halda uppi fjörinu. 

Ögmundur segir það heppilegt hversu margir velunnarar eru tilbúnir að leggja hönd á plóg til stuðnings starfinu. „Í ár erum við sem sagt að styrkja og safna fyrir nýjum matskála sem er verið að byrja að byggja hér á svæðinu. Og þetta gætum við auðvitað ekki gert án hjálpar fullt af sjálfboðaliðum sem koma á hátíðina og hjálpa okkur að láta þetta verða að veruleika.“ 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×