Lífið

„Að horfa upp á pabba fá ekki viðeigandi hjálp var skelfing“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Helga bendir á að læknar skrifi undir eið þess efnis að fara ekki í manngreiningarálit.  „Sá hluti hefur eitthvað skolast til í þessu tilfelli.“
Helga bendir á að læknar skrifi undir eið þess efnis að fara ekki í manngreiningarálit.  „Sá hluti hefur eitthvað skolast til í þessu tilfelli.“

„Okkur finnst hann eiga það skilið að þessi saga heyrist, að við séum röddin hans í þessu,“ segir Helga Sigurjónsdóttir. Sigurjón Þorgrímsson, faðir hennar, lést af völdum briskrabbameins árið 2019, tæpum tveimur vikum eftir greiningu. Hann var þá 59 ára gamall. 

Upplifun fjölskyldunnar er sú að Sigurjón hafi mætt ítrekuðum fordómum innan heilbrigðisgeirans sökum þess að hann glímdi við fíknivanda. Þar af leiðandi hafi hann ekki fengið tilhlýðilega meðhöndlun.

Var mölbrotinn á sál og líkama

Helga segir föður sinn hafa glímt við fíknivanda meira og minna allt sitt líf og fór hann alls fimm sinnum í áfengismeðferð. Eftir því sem árin liðu glímdi hann við margvíslega heilsubresti. Árið 2017 tóku Sigurjón og eiginkona hans þá ákvörðun að flytja búferlum til Stavanger í Noregi, í von um betra líf.

Veikindin héldu þó áfram að herja á hann og að lokum fór svo að hann byrjaði aftur að leita í vímuefni til að lina verkina. Leiðin lá því enn hraðar niður á við.

„Þá tók hann þessa ákvörðun, að koma aftur til Íslands og fara í áfengismeðferð hér,“ segir Helga.

Hún segir föður sinn hafa komið til Íslands „mölbrotinn og búinn á sál og líkama, í leit að hjálp.“

„Í febrúar 2019 kom hann heim eftir tæplega tveggja ára dvöl í Noregi. Við systur tókum á móti honum á flugvellinum hér heima. Vitanlega mjög spenntar, enda miklar pabbastelpur. Spennan tók hins vegar að víkja fyrir vonbrigðum þegar við svo sáum hann. Á móti okkur gekk grár og þreyttur maður sem átti nær enga gleði eftir í augunum. Afar ólíkt honum. Hingað kom hann til þess að fara í meðferð en hann hafði leitað í áfengi um skeið til þess að bæla niður verki og vanlíðan og var hans síðasta haldreipi. Hver sá sem finnur til alla daga og allar nætur, verður á endanum galinn og leggur ýmislegt á sig til þess að leita lausna. Hann ætlaði að sýna sig og sanna að hann gæti þetta.“

En eins og Helga lýsir því var leiðin í átt að bata bæði erfið og niðurlægjandi fyrir föður hennar, þar sem honum mættu fordómar á fordóma ofan í heilbrigðisgeiranum. Hann fékk ekki inni á Vogi fyrr en tæpum mánuði eftir að hann kom til Íslands. Í millitíðinni leitaði hann að sögn Helgu á sjúkrahús en var neitað um verkjastillandi lyf. Hann var sendur heim.

Sigurjón Þorgrímsson var einungis 59 ára þegar krabbameinið dró hann til dauða.Aðsend

„Hann fór heim og drakk í sig kjark til þess að binda enda á líf sitt. Þá var loksins tekið við honum. En það var ekkert eftirlit með honum á spítalanum, ekkert kíkt á hann og hann gat bara valsað inn og út.“

„Pabbi kallaði ekki allt ömmu sína og var því þyngra en tárum taki að horfa upp á hann sárþjáðann, heltekinn af verkjum og grátbiðja um verkjastillingu í orðsins fyllstu merkingu.“

Lauk meðferðinni með reisn

Sigurjón komst loks inn á Vog og fór að sögn Helgu í gegnum meðferðina „á hnefanum.“

„Ég held að viðhorfið sem hann fékk hérna heima hafi tvíeflt hann, hann var alveg staðráðinn í að komast í gegnum þessa meðferð.“

Fjölskyldan undrar sig á því að þrátt fyrir að Sigurjón hafi verið undir eftirliti lækna á sjúkrahúsinu í margar vikur, sárkvalinn af verkjum, þá hafi aldrei komið til tals að rannsaka uppruna verkjana nánar.

„Það hefði kanski ekki þurft meira en bara eina röngtenmyndatöku, þar sem meinið var búið að dreifa sér í lungun. En það er eins og enginn hafi viljað skoða þetta neitt nánar. Okkar upplifun er sú að það hafi bara ekki verið tekið neitt mark á honum, hann var bara ekki tekinn alvarlega. Pabbi talaði sjálfur um að núna væri hans saga að koma í bakið á honum, eftir öll þessi ár. Hann hafði áður talað um að hann finndi fyrir fordómum, að aðrir sæju hann sem „annars flokks“. Ég tók því með fyrirvara, var svolítið skeptísk. En þarna, eftir að hann kom heim og fór í gegnum þetta,þásá ég þetta algjörlega svart á hvítu.“

Helga bendir á að læknar skrifi undir eið þess efnis að fara ekki í manngreiningarálit. „Sá hluti hefur eitthvað skolast til í þessu tilfelli.“

Lést tveimur vikum eftir greiningu

Eftir að Sigurjón hafði lokið áfengismeðferðinni á Íslandi hélt hann aftur heim til Noregs.

„Þrátt fyrir allt þá lauk hann meðferðinni með reisn, og var stoltur af sjálfum sér.“

Á þessum tíma hafði þó enginn gert sér ljóst að Sigurjón var með sjö sentimetra stórt æxli í brisi sem hafði dreift sér víðar um líkamann.

„Hann náði nokkrum góðum dögum eftir að hann kom heim, en endaði svo á spítala í verkjakasti. Þar var loksins einhver sem hlustaði á hann.“

Það var ekki fyrr en þá sem að viðeigandi rannsóknir voru gerðar og í ljós kom að Sigurjón var með krabbamein á lokastigi. Atburðarásin sem tók við í kjölfarið var hröð.

„Það liðu þrjár vikur á milli þess að hann fékk greininguna og þar til hann var jarðaður á Íslandi. Við náðum þó að fara út til hans viku áður en hann dó. Þetta var allt svo súrrealískt. Það var enginn tími til að meðtaka þetta allt saman, við þurftum að meðtaka það að hann væri dáinn, en við vorum ekki einu sinni búin að meðtaka það almennilega að hann væri með krabbamein,“ segir Helga og bætir svo við:

„En ég held að við höfum öll komið sjálfum okkur svolítið á óvart þarna. Maður kemst að því í svona aðstæðum að maður getur oft miklu meira en maður heldur.“

Meðfylgjandi ljósmynd var tekin um þetta leyti.

Þessi mynd var tekin um það leyti sem Sigurjón lá á dánarbeðinu.Aðsend

„Mér þykir ofboðslega vænt um þessa mynd, sem sýnir hans síðustu andartök. Það er erfitt að horfa á hana, en það er mikil ást þarna.“

Enginn velur sér að vera fíkill

Í dag eru liðin fjögur ár frá andláti Sigurjóns.

„Af því að þetta gerðist allt svo ótrúlega hratt, þá er maður hálfpartinn skrefi á eftir í sorgarferlinu. Maður er ennþá að meðtaka þetta allt, þetta er ennþá að síast inn, og það verður þannig áfram,“ segir Helga.

Hún leggur áherslu á að hvorki hún né fjölskyldan vilji ekki kenna einum né neinum um andlát föður hennar. Það sé ekki hægt að benda á neinn. Fyrst og fremst vilja þau vekja fólk til umhugsunar um þá sem minnst mega sín. Fíkn fer ekki í manngreiningarálit, og enginn velur sér að vera fíkill.

Systurnar tvær Erla og Helga Sigurjónsdætur.Aðsend

„En eðlilega, eftir að hafa horft upp á þetta, þá er auðvelt að vantreysta heilbrigðiskerfinu, og dómgreind þeirra sem starfa þar,“ segir Helga. Hún segist jafnframt velta vöngum yfir hvort faðir hennar hefði fengið öðruvísi meðferð ef hann væri hærra settur í þjóðfélaginu, ef hann hefði til dæmis verið efnaður eða þjóðþekktur.

„Enginn hefði geta komið í veg fyrir þetta, það vitum við vel. Enda er það ekki boðskapurinn. Að horfa upp á pabba örmagna og fá ekki viðeigandi hjálp til þess að lina þjáningar hans var skelfing. Og er hans saga, misnotkun vímugjafa, líklega ástæða þess að hann fékk ekki viðeigandi aðstoð fyrr en í blálokin. Þetta rændi okkur öllum dýrmætum tíma. Allir eiga rétt á að komið sé fram við það af virðingu, nærgætni og heiðarleika óháð öllu, því miður átti það ekki við hér.“

„Við vitum það auðvitað að þetta krabbamein hefði alltaf náð honum á endanum, það hefði ekki verið hægt að koma í veg fyrir það. En ef við hefðum bara fengið aðeins meiri tíma, bara til að átta okkur á aðstæðunum og meðtaka þetta allt, undirbúa framhaldið. Þá hefði það breytt svo miklu. Þá hefðum við líka fengið meira tíma með pabba, til að kveðja. Og ef hann hefði vitað að þetta yrðu hans örlög, að deyja úr krabbameini, þá hefði hann kannski lifað seinustu mánuðina aðeins öðruvísi, og ekki eytt þeim í meðferð. Þetta var ofboðslega dýrmætur tími sem fór eiginlega bara algjörlega í vaskinn.

Við söknum hans alla daga. Húmorinn, kaldhæðnin, knúsin, hláturinn og öll ástin frá honum. Engin kemur í staðin fyrir pabba gamla. Okkur finnst það vera svolítið okkar skylda að sagan hans komist til skila. Kannski gæti þessi saga vakið einhverja til umhugsunar, og kannski væri þá hægt að koma í veg fyrir fleiri svona tilfelli. Það þarf að upplýsa um svona lagað.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×