Drífa Snædal, sem á hús á eyjunni ásamt þremur vinkonum sínum, segir hátíðina hafa verið dásamlega hingað til.
„Þetta er fyrsta hátíðin sem Hrísey heldur. Þeir sem hingað hafa komið vita að dráttarvélar eru helstu ökutækin, þannig hér var mikil gleðiganga með dráttarvélum og gangandi fólki auðvitað.

Um er að ræða einu hinsegin hátíðina á Akureyri, þar sem Hrísey er hluti af sveitarfélaginu Akureyri. Meðal viðstaddra voru Siggi Gunnars útvarpsmaður Daníel Arnarsson framkvæmdastjóri Samtakanna '78 og dragdrottningin Starina. Bjarni Snæbjörnsson, sem hefur slegið í gegn með leikverki hans Góðan daginn faggi, kom einnig fram.
„Hér í Hrísey býr fólk sem á börn sem eru hinsegin og þau ákváðu bara að skella í hinsegin daga,“ segir Drífa. „Ég held að það sé almenn gleði og kátína með þetta, hér er flaggað um allan bæ. Hrísey er orðinn hýr yfir helgina.“
Reiknað er með því að yfir 200 manns hafi tekið þátt í göngunni í dag. Um 120 manns hafa vetursetu í Hrísey.
Gleðin heldur áfram í kvöld en ball verður haldið í félagsheimilinu þar sem Siggi Gunnars þeytir skífum fram á rauða nótt.





