Innlent

Reykja­víkur­borg biðst vel­virðingar á töfum á sorp­hirðu

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Íbúi í Vesturbæ hvatti Reykjavíkurborg til að segja upp samningi við Terra um tæmingu gámanna og beita dagsektum þegar sorp safnast við þá í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.
Íbúi í Vesturbæ hvatti Reykjavíkurborg til að segja upp samningi við Terra um tæmingu gámanna og beita dagsektum þegar sorp safnast við þá í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Teitur Atlason

Reykjavíkurborg hefur beðist velvirðingar á töfum á sorphirðu sem áttu sér stað fyrr í mánuðinum. Vegna viðgerða á sorphirðubílum Terra seinkaði sorphirðu grenndargáma um sex til sjö daga.

Í tilkynningu segir að Reykjavíkurborg hafi verið tilkynnt í síðustu viku um að tæming grenndargáma kæmi til með að seinka um fjóra til fimm daga vegna bilana í sorphirðubílum og verktakar væru að störfum við tæmingar. Úr varð að tæmingu seinkaði um sex til sjö daga.

„Forstjóri Terra hefur fullvissað Sorpu og Reykjavíkurborg um að fyrirtækið muni vinna á tveimur bílum á vöktum næstu daga við að vinna upp þessar tafir. Eins er fyrirtækið með sorpbíl sem hirðir það endurvinnsluefni sem skilið hefur verið eftir á stöðvunum,“ sagði í tilkynningunni. 

Vinna upp tafirnar á laugardaginn

Þá segir að hirða á pappír og plasti á heimilum hafi að auki verið á eftir áætlun hjá sorphirðu Reykjavíkur. Nú sé verið að vinna á svæðinu frá Laugarnesvegi og Háaleitisbraut austur að Elliðaám. Allir vinnuflokkar vinni við söfnun á pappír og plasti á laugardaginn til að vinna upp tafirnar. 

Mikil umræða í kringum sorphirðu í Reykjavík hefur skapast undanfarið. Íbúi í Vesturbæ sagði í Kvöldfréttum Stöðvar 2 það hafa verið vandamál svo árum skipti að grenndargámar fyllist á augabragði og rusl safnast við þá í marga daga. Þá hvatti hann borgina til að segja upp samningi við Terra um tæmingu gámanna og beita dagsektum þegar sorp safnast við þá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×