Innlent

Biskup endur­ráðinn af undir­manni sínum án vitundar kirkju­þings

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir biskup mun sitja í embætti sínu til 31. október 2024.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup mun sitja í embætti sínu til 31. október 2024. Vísir/Vilhelm

Fram­kvæmda­stjóri Bisk­ups­stofu réði yf­ir­mann sinn, Agnesi M. Sig­urðardótt­ur bisk­up, þann 1. júlí 2022 til að gegna embætti bisk­ups tíma­bundið í 28 mánuði, eða til og með 31. október 2024.

Morgunblaðið greindi frá þessu í morgun og segist hafa undir höndunum ráðning­ar­samn­ing þess efnis sem er und­ir­ritaður af Ragn­hildi Ásgeirs­dótt­ur, framkvæmdastjóra Biskupsstofu, og Agnesi M. Sig­urðardótt­ur bisk­up.

Forseti kirkjuþings, Drífa Hjartardóttir, sagði í samtali við Morgunblaðið að það væri undarlegt að undirmaður geti gert ráðningarsamning við yfirmann sinn eins og í þessu tilviki. Þá hafi hvorki kirkjuþing né forsætisnefnd þess vitað af samningnum.

„Ég frétti af til­vist þessa samn­ings í síðustu viku, ég hafði ekki hug­mynd um hann áður. Mér finnst það mjög und­ar­legt að und­irmaður geti gert ráðning­ar­samn­ing við yf­ir­mann sinn. Við vor­um aldrei lát­in vita af þessu, hvorki for­sæt­is­nefnd kirkjuþings né kirkjuþingið sjálft. Þetta kom mér mjög á óvart og er mjög sér­stakt,“ sagði Drífa Hjart­ar­dótt­ir í viðtali við Morg­un­blaðið.

Reglum um skipunartíma biskups breytt

Agnes Sigurðardóttir var skipuð biskup af forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, frá og með 1. júlí 2012 til fimm ára og var skip­un­ar­tím­inn síðan fram­lengd­ur um önn­ur fimm ár 1. júlí 2017. 

Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Gunnars Sigurjónssonar, fyrrverandi sóknarprests í Digraneskirkju sem var látinn fara úr prestakallinu í kjölfar ásakana um einelti og kynferðislega, hefur vakið athygli á skipunartíma Agnesar biskups og hæfi hennar til að taka ákvarðanir.

Kirkjuþing breytti reglum um kosningu biskups í fyrra þannig að kjörtímabil hans er nú sex ár. Í erindi sem Auður sendi á forseta kirkjuþings fyrr á árinu sagði hún að það þýddi ekki að skipunartími biskups framlengdist sjálfkrafa og Agnes hefði því ekki getað tekið ákvörðun um að reka Gunnar.

Með réttu hefði skip­un­ar­tími bisk­ups átt að renna út 1. júlí 2022 en nú er ljóst að skipunartími hennar rennur ekki út fyrr en 31. október 2024.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×