Innlent

Kæru­nefnd út­boðs­mála gefur grænt ljós á Arnar­nes­veg

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gatnamót Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar, séð úr Víðidal.
Gatnamót Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar, séð úr Víðidal. Vegagerðin/Verkís

Kærunefnd útboðsmála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Vegagerðinni hafi verið heimilt að hafna lægsta tilboði í lagningu Arnarnesvegar og ganga til samninga við aðra.

„Við erum að semja við Suður­verk og Loftorku um Arn­ar­nes­veg­inn, erum að bíða eft­ir gögn­um, en klár­um samn­ing­inn vænt­an­lega í næstu viku,“ hefur Morgunblaðið eftir G. Pét­ri Matth­ías­syni, upp­lýs­inga­full­trúa Vega­gerðar­inn­ar, um stöðu málsins.

Ákvörðun Vegagerðarinnar um að ganga til samninga við Suðurverk og Loftorku var kærð af Óskataki ehf. og Háfelli ehf., sem buðu sameiginlega í verkið og áttu lægsta tilboðið. Tilboð þeirra nam 5,4 milljörðum króna, um 88 prósent af áætlun Vegagerðarinnar.

Tilboðið var hins vegar ekki talið standast þær kröfur sem gerðar voru til tilboðsgjafa í útboðinu, þar sem samanlögð velta fyrirtækjanna tveggja nam aðeins 1,8 milljörðum en gerð var krafa um veltu upp á 2,2 milljarða. 

Óskatak og Háfell töldu að verðbæta ætti upphæðina en kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að ef svo hefði verið hefði verið kveðið sérstaklega á um það í útboðslýsingunni og nánari útfærsla tilgreind.

Tilboð Suðurverks og Loftorku var 1,3 milljörðum hærra en lægsta tilboðið.

Að sögn G. Péturs munu tafirnar vegna kærunnar ekki verða til þess að fresta áætluðum verklokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×