Innlent

Ólga innan björgunar­sveita vegna tíu milljóna Grinda­víkur­styrks

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Kristófer Jón Kristófersson ræddi styrkveitingu ríkisstjórnarinnar til björgunarsveitarinnar Þorbjarnar.
Kristófer Jón Kristófersson ræddi styrkveitingu ríkisstjórnarinnar til björgunarsveitarinnar Þorbjarnar. skjáskot

Björgunarsveitin Þorbjörn hlaut í gær tíu milljóna króna styrk frá ríkinu til brunavarna á gossvæðinu á Reykjanesi. Nokkur óánægja ríkir meðal björgunarsveitarfólks vegna styrkveitingarinnar, þar sem fjölmargar sveitir komi að verkefninu og því eigi styrkurinn að renna jafnt til sveita eftir aðkomu.

„Það eru ótal hópar víðsvegar af landinu sem koma og vinna að þessu verkefni. Það hefði mátt fara öðruvísi að þessu og dreifa þessum peningi jafnt á milli sveita, eftir þeirra aðild að málinu,“ segir Kristófer Jón Kristófersson formaður björgunarsveitarinnar Suðurnes.

Um sé að ræða samvinnuverkefni ótal sveita. „Ég get ekki nefnt allar sveitirnar sem koma að þessu verkefni,“ segir hann og heldur áfram:

„Ég velti fyrir mér hvort það sé ástæða fyrir því að þessi styrkveiting hafi runnið aðeins til einnar sveitar. Mitt mat er að þetta hefði átt að renna til heildarverkefnisins. Þetta er mjög umfangsmikið og það er ekki mikil sátt eins og staðan er núna.“

Gossvæðið hefur verið lokað frá því á fimmtudag en björgunarsveitir hafa sinnt verkefnum á svæðinu á hverjum degi.

„Það er fólk þarna allan sólarhringinn og engin pása.“

Hann segir fólk að mestu leyti fylgja fyrirmælum viðbragðsaðila en ekki sé sniðugt að þvælast á svæðinu núna vegna mengunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×