Innlent

Lands­menn ó­sam­mála um á­kvörðun Svan­dísar

Máni Snær Þorláksson skrifar
Ákvörðun Svandís Svavarsdóttir féll misvel í kramið á landsmönnum.
Ákvörðun Svandís Svavarsdóttir féll misvel í kramið á landsmönnum. Vísir/Ívar Fannar

Landsmenn skiptast nokkuð jafnt í fylkingar þegar kemur að skoðun þeirra á ákvörðun matvælaráðherra um tímabundið bann á hvalveiðum. Samkvæmt Þjóðarpúls Gallup eru tæp fjörutíu og tvö prósent ánægð með ákvörðunina en rúmlega þrjátíu og níu prósent eru óánægð.

Þann 21. júní síðastliðinn átti hvalveiðitímabil að hefjast en daginn fyrir það greindi Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra frá ákvörðun sinni um bannið. Ákvörðunin var umdeild og vakti mikla reiði hjá þeim sem tengjast hvalveiðunum. Þau sem hafa barist gegn hvalveiðum voru þó hæstánægð.

Samkvæmt niðurstöðum í könnun sem Gallup framkvæmdi frá 23. júní til 2. júlí kemur fram að aðeins fleiri þeirra sem tóku þátt eru ánægð með niðurstöðuna. Einstaklingarnir sem tóku þátt í könnuninni voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Karlar eru óánægðari en konur með ákvörðun Svandísar en rétt rúmlega helmingur þeirra sögðust vera óánægðir. Á móti þá voru rétt rúmlega helmingur kvenna ánægð með ákvörðunina. Tuttugu og tvö prósent kvenna voru hvorki ánægðar né óánægðar. Sextán prósent karla voru hvorki ánægðir né óánægðir.

Niðurstöður könnunarinnar má sjá hér.Gallup

Niðurstöðurnar breytast nokkuð eftir búsetu fólks. Fjörutíu og sex prósent þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu eru ánægð með ákvörðun Svandísar, þrjátíu og þrjú prósent þeirra sem búa á landsbyggðinni voru ánægð.

Einnig breytast niðurstöðurnar eftir aldri fólks, þau sem eru yngri eru ánægðari með ákvörðunina. 

Þau sem myndu kjósa Miðflokkinn í Alþingiskosningunum eru óánægðust með ákvörðun Svandísar. Framsóknarfólk kemur þar á eftir og svo þau sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Þau sem myndu kjósta Vinstri græn, Sósíalistaflokk Íslands, Samfylkinguna og Pírata eru ánægðust með ákvörðunina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×