Þann 21. júní síðastliðinn átti hvalveiðitímabil að hefjast en daginn fyrir það greindi Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra frá ákvörðun sinni um bannið. Ákvörðunin var umdeild og vakti mikla reiði hjá þeim sem tengjast hvalveiðunum. Þau sem hafa barist gegn hvalveiðum voru þó hæstánægð.
Samkvæmt niðurstöðum í könnun sem Gallup framkvæmdi frá 23. júní til 2. júlí kemur fram að aðeins fleiri þeirra sem tóku þátt eru ánægð með niðurstöðuna. Einstaklingarnir sem tóku þátt í könnuninni voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.
Karlar eru óánægðari en konur með ákvörðun Svandísar en rétt rúmlega helmingur þeirra sögðust vera óánægðir. Á móti þá voru rétt rúmlega helmingur kvenna ánægð með ákvörðunina. Tuttugu og tvö prósent kvenna voru hvorki ánægðar né óánægðar. Sextán prósent karla voru hvorki ánægðir né óánægðir.

Niðurstöðurnar breytast nokkuð eftir búsetu fólks. Fjörutíu og sex prósent þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu eru ánægð með ákvörðun Svandísar, þrjátíu og þrjú prósent þeirra sem búa á landsbyggðinni voru ánægð.
Einnig breytast niðurstöðurnar eftir aldri fólks, þau sem eru yngri eru ánægðari með ákvörðunina.
Þau sem myndu kjósa Miðflokkinn í Alþingiskosningunum eru óánægðust með ákvörðun Svandísar. Framsóknarfólk kemur þar á eftir og svo þau sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Þau sem myndu kjósta Vinstri græn, Sósíalistaflokk Íslands, Samfylkinguna og Pírata eru ánægðust með ákvörðunina.