Innlent

Nota þyrlu til að slökkva gróður­elda við gosið

Eiður Þór Árnason skrifar
Hraunið hefur víða brennt og kveikt í gróðri.
Hraunið hefur víða brennt og kveikt í gróðri. Vísir/vilhelm

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar flýgur nú yfir eldstöðvarnar við Litla-Hrút og dreifir vatni yfir gróðurelda á svæðinu til að halda aftur af dreifingu þeirra. Þetta er gert að ósk almannavarna til að draga úr líkum á því að eldurinn breiðist að gönguslóðum.

Hefur sérstök slökkviskjóla verið sett neðan á þyrluna TF-EIR í þessum tilgangi, að sögn Gunnars Arnar Arnarssonar, yfirstýrimanns hjá Landhelgisgæslunni. Hann telur að vatnið sé sótt í Djúpavatn sem er staðsett skammt frá gosstöðvunum.

Mikill reykur frá gróðureldum bætist við gasmengunina í Litla Hrút sem myndast einkum við mosabruna. Slökkviaðgerðir Landhelgisgæslunnar hófust fyrir skömmu og munu halda áfram eftir því sem þurfa þykir í kvöld.

Reykurinn frá brunanum öllu verri

Gunnar Guðmundsson, lungnalæknir og prófessor við Háskóla Íslands, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að gróðureldareykurinn væri mun verri en kvikgösin sem komi upp með hrauninu.

 „Það er best fyrir alla að vera sem minnst í honum,“ sagði Gunnar. „Fólk lýsir miklum sviða í augum og óþægindum í öndunarfærum. Það gildir líka um þá sem eru nokkuð hraustir. Sumir þurfa ekki að vera nema nokkrar mínútur í reyknum til að finna mikið fyrir honum.“

„Við þekkjum langtímaafleiðingarnar ekki vel og því hvetjum við fólk til að fara varlega.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×