Innlent

Þyrlu­flug yfir gos­stöðvar

Oddur Ævar Gunnarsson og Eiður Þór Árnason skrifa
Strax er eldgosið við Litli-Hrút orðið að miklu sjónarspili.
Strax er eldgosið við Litli-Hrút orðið að miklu sjónarspili. vísir/vilhelm

Vísir var í beinni út­sendingu frá þyrlu­flugi yfir nýjum gos­stöðvum á Reykja­nesi eftir að gos hófst um klukkan 16:40 við Litla-Hrút. 

Kristján Már Unnars­son frétta­maður og Sigurjón Guðni Ólason myndatökumaður voru um borð í þyrlu Norðurflugs yfir gosinu og lýsti Kristján því sem fyrir augu og eyru bar. Útsendingu er nú lokið en horfa má á brot af því besta í spilaranum. 

Hér fyrir neðan má svo sjá útsendinguna í heild sinni. 

Klippa: Þyrlu­flug Kristjáns Más yfir glænýtt gosið

Þriðja eld­gosið á jafnmörgum árum

Þriðja eld­gosið er nú hafið á Reykja­nesinu á um tveimur árum og fjórum mánuðum. Eld­gos hófst við Fagra­dals­fjall þann 19. mars 2021 í kjöl­far jarð­skjálfta­hrinu sem varði í yfir þrjár vikur en þá voru 800 ár liðin frá síðustu elds­um­brotum á svæðinu. Var eld­gosið 2021 því merki um nýtt virkni­tíma­bil á Reykja­nesi sem sér­fræðingar telja að gæti varið í langan tíma. Eftir þægi­legt og stór­á­falla­laust gos hætti hraun­flæði úr gígnum um hálfu ári síðar þann 18. septem­ber 2021.

Eld­gos hófst svo í Mera­dölum þann 3. ágúst í fyrra á ná­lægu svæði ná­lægt Fagra­dals­fjalli, þá í kjöl­far jarð­skjálfta­hrinu sem hafði á­gerst í nokkrar vikur. Eld­gosið í Mera­dölum stóð yfir í um á­tján daga og varði því í mun styttri tíma en elds­um­brotin árið 2021.

Yfir­standandi skjálfta­hrina á Reykja­nesi hófst þann 4. júlí síðast­liðinn og því ljóst að að­dragandinn að nýja eld­gosin eru tölu­vert styttri í þetta skiptið. Náði skjálfta­hrinan á­kveðnum há­punkti klukkan 22:23 í gær þegar stærsti jarð­skjálftinn til þessa lét finna fyrir sér víða um land en hann var 5,2 að stærð. Innan við sólar­hring síðar var farið að bera á eld­virkni við Keili.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×