Innlent

Hrina skemmdar­­­verka hrjáir gesti á Akur­eyri

Eiður Þór Árnason skrifar
Margir bíleigendur sitja eftir með sárt ennið.
Margir bíleigendur sitja eftir með sárt ennið. Vísir/Vilhelm/Aðsend

Tilkynnt hefur verið um fjölda skemmdarverka á Akureyri þar sem óprúttnir aðilar hafa rispað bifreiðar að utan. Hafa tólf slík mál komið inn á borð lögreglu en talið er að öll skemmdarverkin hafi átt sér stað í gær á svipuðu svæði nálægt miðbæ Akureyrar.

Mikill fjöldi fólks er í bænum þessa dagana í tengslum við N1-mót drengja og Pollamótið en báðum fótboltamótum lýkur í dag. 

„Það eru nokkuð margar bifreiðar sem hafa verið skemmdar og málin eru í rannsókn,“ segir Inga María Warén, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, í samtali við fréttastofu.

„Á heildina litið er þetta mikið tjón en þetta eru bara skrámur á einni og einni bifreið.“

Að sögn Vikublaðsins er talið að um tíu þúsund manns séu á Akureyri í tengslum við N1-mótið og þá séu 66 lið karla og kvenna skráð til leiks á Pollamótinu. Veðrið hefur leikið við gesti og íbúa Akureyrar á þessum lokadegi mótanna og hiti náð allt að 23 gráðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×