Innlent

Dæmdur fyrir líkams­meiðingar af gá­leysi eftir hrað­akstur

Atli Ísleifsson skrifar
Slysið átti sér stað á þjóðvegi 1, norðvestur af Akureyri, þann 9. nóvember 2021.
Slysið átti sér stað á þjóðvegi 1, norðvestur af Akureyri, þann 9. nóvember 2021. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt mann í sextíu daga fangelsi fyrir að hafa verið valdur að umferðarslysi þar sem tveir slösuðust eftir að hann hafði misst stjórn á bíl sínum þar sem hann ók of hratt á þjóðvegi 1 í Hörgársveit í nóvember 2021.

Í ákæru segir að maðurinn hafi ekið bílnum á 132 kílómetra hraða á vegarkafla við Moldhaugaháls, þar sem hámarkshraði er 90, og ekið bílnum í snjókrap í vegarkanti, misst stjórn á bílnum og stýrt honum inn á öfugan vegarhelming þar sem hann rakst harkalega á bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Maðurinn var að aka í suðurátt, í átt að Akureyri, en hinum bílnum var ekið í átt frá Akureyri.

Fram kemur að ökumaður og farþegi í hinum bílnum hafi slasast. Hlaut annar fjölda beinbrota en hinn brot á bringubeini og brot á hægra hné.

Fram kemur að maðurinn hafi ekki sótt þing þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall og var hann því dæmdur að honum fjarstöddum. Var hann sakfelldur fyrir það sem honum var gefið að sök i ákæru.

Dómari mat hæfilega refsingu sextíu daga fangelsi, en skal fresta fullnustu hennar og hún niður falla að tveimur árum liðnum, haldi maðurinn almennt skilorð. Þá var maðurinn sviptur ökurétti í þrjá mánuði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×