Fréttir

Mótmælt á dánardægri Roe gegn Wade

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Efnt var til mótmæla víða um Bandaríkin í dag, meðal annars í Washington D.C.
Efnt var til mótmæla víða um Bandaríkin í dag, meðal annars í Washington D.C. AP/Stephanie Scarbrough

Boðað var til fjöldafunda víða um Bandaríkin um helgina en í dag var ár liðið frá því að Hæstiréttur landsins felldi úr gildi eigin úrskurð í Roe gegn Wade, sem hafði í marga áratugi tryggt rétt kvenna til þungunarrofs.

Frá því að niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir hefur fjöldi ríkja hert löggjöf sína varðandi þungunarrof til muna og takmarkað aðgengi að þjónustunni verulega. Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í yfirlýsingu í dag að þessi ríki hefðu sett líf og heilsu kvenna í hættu og hótað heilbrigðisstarfsfólkinu sem hjálpaði þeim.

Bönn væru hins vegar aðeins byrjunin.

„Þingmenn Repúblikanaflokksins vilja banna þungunarrof á landsvísu og ganga enn lengra, með því að taka FDA-samþykkt þungunarrofslyf af markaði og gera erfiðara að nálgast getnaðarvarnir. Markmið þeirra eru öfgakennd, hættuleg og ganga gegn vilja meirihluta Bandaríkjamanna,“ sagði forsetinn.

FDA er Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna.

Samkvæmt skoðanakönnun NBC News sem birt var í gær er 61 prósent Bandaríkjamanna ósammála niðurstöðu Hæstaréttar og 67 prósent kvenna.

Jasmine Crockett, þingkona frá Texas, sagði árið hafa einkennst af tráma og hryllingi fyrir konur um allt land, sérstaklega í ríkjum þar sem Roe gegn Wade var „síðasta varnarlínan“. Hún sagði tíðni innlagna vegna vandamála á meðgöngu hvergi hærri en í norðurhluta Texas.

„Þeir tala fjálglega um að vernda börn en leyfið mér að spyrja að þessu: Hvað verður um þegar fædd börn móður sem deyr sökum vandamála á meðgöngu af því að hún getur ekki fengið þá þjónustu sem hún þarf vegna utanlegsfósturs?“ spurði Crockett á Twitter.

Þungunarrof hefur víða verið takmarkað við allt niður í sex vikur meðgöngu, áður en margar konur vita að þær eru óléttar, og þá eru fáar undanþágur í gildi vegna sérstakra aðstæðna.

Hópar á borð við Planned Parenthood notuðu tækifærið og lýstu yfir stuðningi við Biden og Kamölu Harris fyrir forsetakosningarnar 2024.

„Þungunarrof er heilbrigðisþjónusta. Við þörfnumst leiðtoga sem hafa skuldbundið sig til að standa vörð um það frelsi sem við njótum, ekki þeirra sem vilja svipta okkur því,“ sagði Alexis McGill Johnson, framkvæmdastjóri Planned Parenthood Action Fund.


Tengdar fréttir

Stjórn­endur lyfja­fyrir­tækja fylkja sér að baki FDA

Fleiri en 400 stjórnendur lyfjafyrirtækja hafa lýst yfir þungum áhyggjum af ákvörðun dómara í Texas sem komst að þeirri niðurstöðu að Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjann (FDA) eigi að afturkalla markaðsleyfi vegna þungunarrofslyfsins mifepristone.

Dómari aftur­kallar leyfi FDA fyrir þungunar­rofslyfi

Dómari í Texas í Bandaríkjunum hefur ógilt samþykki Matvæla- og lyfjastofnunar (FDA) Bandaríkjanna um markaðsleyfi fyrir þungunarrofslyfið mifepristone. Um er að ræða fyrsta skiptið sem dómstóll hlutast til um leyfisveitingu stofnunarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×