Innlent

Mos­fellingar semja um nætur­strætó

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Regína Ástvaldsdóttir bæjarstjóri segir næturstrætó öryggismál fyrir ungt fólk.
Regína Ástvaldsdóttir bæjarstjóri segir næturstrætó öryggismál fyrir ungt fólk.

Mosfellingar hyggjast taka upp akstur næturstrætó á nýjan leik líkt og Reykvíkingar hafa gert. Bæjarstjóri segir þetta öryggismál fyrir ungt fólk.

„Við viljum hafa strætó sem valkost fyrir fólk sem er að skemmta sér í miðbænum um helgar,“ segir Regína Ástvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. „Það er ákveðið öryggi fólgið í því og ungt fólk hefur kallað eftir því.“

Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á fimmtudag að fela bæjarstjóra að ganga til samninga við Strætó og Reykjavíkurborg um næturstrætó í Mosfellsbæ. Var tillagan samþykkt með öllum 5 atkvæðum.

Mosfellsbær óskaði eftir kostnaðarmati við það að lengja leið 106 frá Grafarvogi upp í Mosfellsbæ á næturnar. Greiðir þá Mosfellsbær þann aukakostnað sem hlýst af breytingunni ásamt hlutdeild í öryggisgæslu og flotastjórnun.

Kostnaðarmatið var klárað í maí og er 2,5 milljón krónur á ári.

„Þetta er hins vegar eitthvað sem við þurfum að ræða við Reykjavíkurborg og stjórn Strætó um,“ segir Regína.

Ekki vilji í Hafnarfirði og Kópavogi

Næturstrætó Reykjavíkur hófst þann 25. febrúar síðastliðinn. Eru þetta fjórar leiðir frá miðborginni. Það er 103 í Breiðholtið, 104 í Úlfarsárdalinn, 105 í Norðlingaholtið og 106 í Grafarvog. Aksturinn er frá klukkan 1:25 til 3:40 og tíðnin um ein klukkustund.

Þá er stakt fargjald tvöfalt hærra en á daginn, krónur 1.100 en áskriftarkort gilda einnig í næturstrætó.

Málið hefur komið til tals í Kópavogi og Hafnarfirði þar sem minnihlutar í bæjarstjórnum hafa þrýst á næturstrætó. Þar hafa bæjarstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ekki viljað taka upp næturstrætó á nýjan leik.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×