Lífið

Fýlu­ferð til Ís­lands endaði með einka­tón­leikum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Tónleikagestir voru að sögn Corquevielle milli þrjátíu og fjörutíu talsins. 
Tónleikagestir voru að sögn Corquevielle milli þrjátíu og fjörutíu talsins.  Getty/Instagram

Erlendir aðdáendur söngkonunnar Bjarkar sem áttu miða á Cornucopia tónleika hennar duttu heldur betur í lukkupottinn á dögunum þegar blásið var til einkatónleika handa þeim sem höfðu skipulagt ferð til landsins fyrir tónleikana. Tilkynnt var í maí um að Cornucopia tónleikum Bjarkar yrði aflýst.

Síleski blaðamaðurinn Juan Vallejos Croquevielle varð fyrir miklum vonbrigðum þegar fyrirhuguðum tónleikum Bjarkar, Cornucopia, var aflýst í maí. Umræddir tónleikar áttu að fara fram dagana 7., 10. og 13. júní.

„Ég er búinn að vera aðdáandi Bjarkar síðan ég var fjórtán ára,“ sagði Croqueville um aflýsinguna í myndbandsfærslu á Instagram. „Mig langaði til þess að gráta, í rauninni grét ég,“ sagði hann.

Croquevielle segir frá því að til allrar hamingju honum hafi verið boðið í einkaveislu sem haldin var fyrir þá sem höfðu skipulagt ferð til landsins til þess að sjá hana á Cornucopia tónleikunum. 

Hann sýnir myndbandsbrot af því þegar söngkonan gekk fram hjá honum í veislunni, honum til mikillar undrunar, og þegar hún þeytti skífum fyrir hópinn, sem taldi að sögn Croqueville milli þrjátíu og fjörutíu manns. 

Croquevielle í samkvæminu meðan Björk gekk fram hjá honum. Skjáskot/Instagram

Blaðamaðurinn segir daginn einn sá eftirminnilegasta í lífi sínu, að draumur hans hafi ræst. BioBioChile, auk annarra síleskra fjölmiðla, hefur vakið athygli á uppákomunni. 


Tengdar fréttir

Aflýsa tónleikum Bjarkar í sumar

Búið er að aflýsa Cornucopia tónleikum Bjarkar sem áttu að fara fram í Reykjavík í júní. Er það gert vegna vandamála við framleiðslu tónleikanna sem ekki tókst að leysa, samkvæmt tilkynningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×