Innlent

Vara við eld­hættu í skógum landsins vegna þurrka

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Eldur kviknaði í tré í Hallormsstaðaskógi þar sem þurrt hefur verið í veðri undanfarnar vikur.
Eldur kviknaði í tré í Hallormsstaðaskógi þar sem þurrt hefur verið í veðri undanfarnar vikur. Skógræktin

Skóg­ræktin varar við eld­hættu vegna mikillar þurrka­tíðar að undan­förnu á Norður-og Austur­landi og varar fólk sér­stak­lega við því að fara með eld í skógum og öðru gróður­lendi.

Þetta kemur fram í til­kynningu á vef Skóg­ræktarinnar. Þar segir að kveikt hafi verið í tré í Hall­orms­staða­skógi í síðustu viku en eldurinn hafi til allrar hamingju ekki breiðst út. Þór Þor­finns­son, skógar­vörður á Austur­landi, segir að lítið hafi rignt undan­farnar vikur í skóginum.

Hvetur skóg­ræktin al­menning til þess að fara var­lega með eld og kveikja helst ekki eld á víða­vangi. Best sé að notast ein­göngu við til­búin eld­stæði eða eld­skála sem víða er að finna á úti­vistar­svæðum í skógum landsins en ekki út­búa eld­stæði á eigin spýtur í skógi eða á öðrum gróður­ríkum svæðum.

Þá minnir Skóg­ræktin á að fleira getur kveikt gróður­elda en eld­spýtur, kveikjarar, sígarettur og þess háttar. Neistar frá bílum og vélum, neistar frá verk­færum á borð við slípi­rokka, jafn­vel tómar flöskur sem fleygt er á víða­vangi geta verkað sem stækkunar­gler og kveikt eld. Góð um­gengni og að­gæsla er því það sem gagnast best gegn hættunni á gróður­eldum.

Þá bendir Skóg­ræktin á fróð­leik um varnir gegn gróður­eldum á vefnum gróður­eldar.is og efni frá Hús­næðis-og mann­virkja­stofnun. 

Við or­lofs­hús og í­búðar­hús á gróður­ríkum svæðum er rétt að huga vel að því að há­vaxinn gróður nái ekki alveg að húsum heldur sé nokkurra metra autt svæði í kring, góðar að­komu­leiðir fyrir slökkvi­bíla og búnaður til að bregðast við ný­kviknuðum eldi svo sem eld­klöppur, slökkvi­tæki, eld­varnar­teppi, vatns­fötur og -slöngur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×