Innlent

„Þetta er því­lík van­virðing fyrir þessa stétt“

Bjarki Sigurðsson skrifar
Frá samskiptum mótmælenda við framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, Arnar Þór Sævarsson.
Frá samskiptum mótmælenda við framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, Arnar Þór Sævarsson. Vísir/Vilhelm

Fjölmenn mótmæli fóru fram við húsnæði Sambands íslenskra sveitarfélaga í morgun. Mótmælin voru skipulögð af foreldrum sem voru orðnir langþreyttir á deilu sambandsins við BSRB. Framkvæmdastjóri sambandsins mætti á mótmælin en orð hans til mótmælenda féllu í grýttan jarðveg.

Mótmælin voru skipulögð af þremur mæðrum úr Hveragerði sem neyðast allar til að vera heima með börnin sín vegna verkfalla starfsmanna BSRB. Þær ákváðu að taka málin í eigin hendur en um tvö hundruð manns, ýmist starfsmenn í verkfalli og foreldrar, mættu með þeim að mótmæla. Kröfðust þær og aðrir gestir að Samband íslenskra sveitarfélaga áttaði sig á verðmæti starfsmannanna sem eru í verkfalli.

„Ófaglærðir leikskólastarfsmenn mæta á hverjum degi með bros á vör og það forusta sem þeir gera er að mæta misjafnlega upplögðum börnum á leikskóla með brosi, kurteisi og hlýju. Þetta eru starfsmenn sem hugga börnin okkar, skipta á bleyjum, gefa þeim að borða, svæfa þau, kenna þeim muninn á réttu og röngu, kenna þeim litina, tölurnar, stafina. Þau þurrka tárin. Passa að þeim líði vel en fyrst og fremst eru þau til staðar,“ sagði Ester María Ragnarsdóttir er hún ávarpaði fundinn. 

„Hvað ertu með í laun?“

Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, mætti út af skrifstofu sinni til að fylgjast með mótmælunum. Átti hann í samræðum við skipuleggjendur mótmælanna en höfðu þær ekki miklar mætur á því sem framkvæmdastjórinn hafði að segja.

„Það þýðir ekki alltaf að fela sig á bak við „Ég er sammála, ég er sammála,“ og „Við þurfum að semja, við þurfum að semja.“ Við erum foreldrar. Við erum mannfólk. Hvað ert þú með í laun?“ sagði Ester við Arnar.

„Við þurfum bara að semja,“ svaraði Arnar.

„Hvað ertu með í laun?“ spurði Ester aftur.

„Við þurfum að klára samninga,“ svaraði Arnar.

„Þetta er ekki flókið, svaraðu spurningunni. Hvað ertu með í laun? Þú ert með allt of mikið í laun og þetta er þvílík vanvirðing fyrir þessa stétt. Sveitarfélögin væru ekkert án þessa fólks. Við komumst ekki í vinnu. Ef við komumst ekki í vinnu þá bitnar það á fleirum,“ sagði Ester þegar Arnar sleppti því aftur að svara spurningu hennar.

„Ég er sammála, við þurfum að klára að semja. Það er það sem við þurfum að gera. Málið er hjá ríkissáttasemjara,“ sagði Arnar.

„Þá skaltu bara fara upp að semja,“ sagði Ester að lokum.

„Ég skora á báða málsaðila að klára og semja og gera það sem hraðast,“ sagði Arnar svo við alla fundargesti.

Ekki búið að boða til fundar

Síðasti fundur samninganefnda BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga fór fram í gær en var honum slitið eftir klukkutíma viðræður. Formaður BSRB sagði í samtali við fréttastofu í gær að samninganefndirnar hafi í raun færst fjær hvorri annarri. Ekki er búið að boða til nýs fundar í deilunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.