Menning

Hundraða milljóna króna frí­­merkja­­safn til sýnis

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Gríðarlega verðmætt frímerkjasafn er til sýnis á Safnasýningunni í Ásgarði. Andvirði frímerkjanna er yfir 600 milljón króna.
Gríðarlega verðmætt frímerkjasafn er til sýnis á Safnasýningunni í Ásgarði. Andvirði frímerkjanna er yfir 600 milljón króna. Vísir/Einar

600 milljón króna frímerkjasafn og gríðarlega verðmætt safn af peningaseðlum er meðal þess sem verður til sýnis á Stóru safnarasýningunni NORDIA 2023. Vísir leit við í Ásgarði í dag þar sem verið var að setja upp sýninguna.

Safnarasýningin Nordia er samnorræn sýning sem flakkar á milli Norðurlandanna og er á fimm ára fresti á Ísland. Sýningin er í grunninn frímerkjasýning en hér á landi hefur hún þróast yfir i safnarasýningu.

Meðal þess sem þar má finna er safn helgað Elvis Presley, sjaldséðir gripir úr safni íslensku lögreglunnar, stórmerkilegir gullpeningar, orður og minnispeningar. Örn Árnasonar leikari sýnir safn sitt af fornfrægum leikaramyndum. Á sýningunni er einnig safn mjög sjaldgæfra muna úr fórum íslenskra nasista á 4. áratug seinustu aldar, þar á meðal flokkskírteini eins þeirra. Aðeins er vitað um eitt slíkt í einkaeign hérlendis.

„Svo eru dýrgripir frá þjóðskjalasafninu, einstök bréf sem eru sameign þjóðarinnar,” segir Gísli Geir Harðarson, formaður sýningarnefndar NORDIA 2023.

„Sum hafa ekki sést opinberlega svo áratugum skiptir þannig það er líka mjög spennandi. Svo eru allskonar gripir tengdir Jóni Sigurðssyni, frelsishetjunni okkar og fleira.”

Eitt af því athyglisverðasta á sýningunni er verðmætasta og fágætasta safn landsins af íslenskum seðlum í 250 ár. Safnið er í eigu Freys Jóhannessonar, sem hefur verið einn helsti safnari landsins á sínu sviði rúm sextíu ár.

Freyr byrjaði að safna seðlum í maí 1960.  Aðspurður segir hann sinn uppáhalds seðil vera fimmtíu króna seðil með mynd af Friðriki áttunda.

Uppáhalds peningaseðill Freys er þessi fimmtíu króna seðill með mynd af Friðriki áttunda.Vísir/Einar

Safnið er sem áður segir gríðarlega verðmætt og hleypur virði þess á hundruðum milljóna.

Og talandi um verðmæti, þá má á sýningunni sjá frímerkjasafn í einkaeigu sem er meira en 600 milljón króna virði. 

Safnarasýningin opnar í Ásgarði á morgun og verður opin um helgina. Aðgangur er ókeypis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×