Innlent

Meint dýra­níð látið við­gangast í ára­raðir

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Kind sem var ekki búið að rýja almennilega og fjárhundur sem hefur komist í lamb sem drapst í sauðburði.
Kind sem var ekki búið að rýja almennilega og fjárhundur sem hefur komist í lamb sem drapst í sauðburði. Samsett

Íbúi í Borgarfirði segir fé á bænum Höfða í Borgarfirði hafa búið við slæman aðbúnað í áraraðir. Húsakostur rúmi ekki allt féð sem ráfi vannært og illa farið um sveitina. Hvorki Matvælastofnun né sveitarstjóri geri nokkuð í málinu sem hafi verið opinbert leyndarmál í rúm fimmtán ár.

Steinunn Árnadóttir, organisti og Borgfirðingur, hefur undanfarið vakið athygli á slæmum aðbúnaði dýra í Borgarnesi og síðustu vikur hefur hún deilt myndum af illa förnu og vannærðu fé af bænum Höfða í Þverárhlíð í Borgarfirði.

Fleiri Borgfirðingar hafa greint frá því við Vísi að þessi slæmi aðbúnaður sé ekki nýr af nálinni og hafi fengið að líðast í þekkingu allra í minnst fimmtán ár.

Þórunn Bergþórsdóttir, íbúi á Höfða í Þverárhlíð, sagði í viðtali við Mannlíf nýlega að ásakanir á hendur ábúenda bæjarins væru aðför frá „bilaðri konu“ og að Matvælastofnun væri búin að fara yfir málin og komist að því að það væri „allt í fínu lagi“

Hrafninn borði lömbin sem kindurnar bera úti um hvippinn og hvappinn

Vísir ræddi við Steinunni Árnadóttur um féð á Höfða. Hún segir húsakost bæjarins ekki nærri því að rúma allar kindurnar og þær ráfi eftirlitslausar um sveitina.

Þú segir að féð búi við slæman aðbúnað, í hverju felst hann?

„Númer eitt er að þetta fólk er orðið fullorðið og getur ekki sinnt þessu,“ sagði Steinunn um bændurna á Þverárhlíð.

„Þú þarft að hafa húsakost til að geta hýst féð, eins og sýnist núna í verstu veðrum sem er hægt að hugsa sér í fjárbúskap,“ segir Steinunn um húsin sem rúmi aðeins um þrjú hundruð kindur af þeim þrettán hundruð kindum bæjarins.

„Þetta fé er alveg eftirlitslaust. Þegar kemur að sauðburði þá er féð að bera út um hvippinn og hvappinn og það er ekkert verið að hugsa um lömbin sem lifa ekki. Þú passar þig þegar þú keyrir þarna fram hjá að þú lítur ekki til hliðar, þú gætir séð kind sem hefur ekki getað borið og hrafninn er búinn með lambið og hana.“

Steinunn segist passa sig að líta ekki til hliðar þegar hún keyri fram hjá bænum af því það eru allar líkur á að maður sjái kind sem hefur dáið í sauðburði og hrafna gæða sér á hræinu.Steinunn Árnadóttir

Kindurnar fái ekki nóg hey og reyni því að bjarga sér

Af því það er ekkert eftirlit eða aðhald með kindunum ráfi þær um sveitina. Þær fari inn á tún hjá öðrum bændum af því þær fái ekki nægilega mikið hey hjá bændunum á Höfða.

„Svo eru kindurnar út um allt, það er ekkert aðhald. Þetta er orðið skaðræði fyrir nágrannanna sem þurfa að horfa á þessa vesalinga grindhoraðar. Þau reyna að komast í túnin hjá öðrum bændum til að bjarga sér.“

Lamb sem hírist bak við stein úti á túni í rigningunni.Aðsent

„Þegar ég keyri þarna fram hjá hef ég ekki séð að þessum skepnum hafi verið gefið,“ segir Steinunn. 

„Það þarf að skila inn ákveðnum fóðurskýrslum þegar fólk er með skepnur. Miðað við það hey sem hefur séð er útilokað að heymagnið passi við þennan fjölda fjár.“

„Fyrir mörgum árum síðan var tekið til í þessu og var felldur ofboðslegur fjöldi af fé til að hægt væri að hýsa þetta og sinna þessu. Það var svakaleg aðgerð sem farið var í árið 2005 en nú er þetta orðið verra en nokkru sinni fyrr.“

Eftirlitsmenn geri engar athugasemdir

Steinunn segir eftirlitsaðila ekki sinna sínum skyldum, kindurnar séu grindhoraðar og hafi ekki verið rúnar í lengri tíma. 

En fyrst þetta er svona opinbert, af hverju gerist þá ekkert í þessum málum?

„Þetta er undir eftirliti en það eru engar athugasemdir gerðar. Núna fyrir stuttu í sauðburði fór eftirlitsmaður að skoða aðbúnað dýranna. Hann gerði athugasemdir við einn kálf, sem var undan útigangskú, en engar aðrar athugasemdir.“

Kind sem hefur ekki verið rúin í nokkurn tíma.Aðsent

„Þarna eru kindur í tveimur reifum og þær eru grindhoraðar og ekkert húsaskjól fyrir þær. Og hann gerir engar athugasemdir við það. Kindurnar geta ekki farið sjálfar úr reifunum, þú þarft að klippa þær úr reifinu. Þegar þú ert með kindur ber þér skylda að sinna þessu.“

„Búfjáreftirlitsaðili frá Mast skrifaði grein með fyrirsögninni „Hugsar þú vel um féð þitt“ og meðal annars stóð þar að maður ætti að rýja kindurnar en þarna eru þær allar nánast ekki rúnar. Sá sem skrifaði þessa grein er búfjáreftirlitsaðilinn sem fer yfir þetta og gerir engar athugasemdir,“ segir Steinunn um tvískinnung búfjáreftirlitsaðila.

Steinunn segir að það verði svakaleg þyngd í reifunum þegar það er ekki búið að rýja kindurnar og sér maður þær þá liggja örmagna undan þyngdinni.

Margbúið að láta vita en ekkert gerist

Hvað veldur því að búfjáraðilinn gerir engar athugasemdir?

„Það er eitt af því sem maður sér ítrekað af því maður hefur gengið á eftir málum,“ segir Steinunn sem hefur áður vakið athygli á slæmri meðferð á dýrum, hestum í Borgarnesi og kúm í Bæjarsveit, sem hafa verið vanrækt í langan tíma.

„Þetta er elsta og alvarlegasta tilfellið en í hinum tilfellunum var líka margbúið að láta vita. Þegar alvarleikinn er orðinn svona mikill er erfitt að ráðast í þetta og þá veigrar fólk sér við að bregðast við þessu,“ segir Steinunn.

„Það er ekki að þetta fólk sé vont, það ræður bara ekki við þetta á einhvern óskiljanlegan hátt. Þá hugsar maður að það ætti kannski einhver annar að vera í þessu fyrst þessir einstaklingar hafa ekki bolmagn eða dug til þess að fylgja þessu eftir,“ segir Steinunn um málið sem 

Hvað ætli þetta séu margar kindur?

„Það eru engar tölur gefnar upp og örugglega enginn sem veit hvað þær eru margar. Sleginn tala er þrettán hundruð,“ segir Steinunn um fjölda kindanna sem sé „þúsund kindur umfram það leyfilega magn sem þau ættu að vera með“ vegna skorts á húsakosti.

Harðorð í garð sveitarstjórans

Þú hefur líka vakið athygli á hlut sveitarstjórans í þessu, hvað gerði hann?

„Ég var mjög harðorð í hans garð,“ segir Steinunn um yfirlýsingar sínar á Facebook þar sem hún vakti athygli á því að sveitarstjórinn Stefán Broddi Guðjónsson hefði sent starfsmenn bæjarins til að sækja villifé frá Höfði sem hafði villst inn á land hans. „En ég stend alveg við það af því hann hefur ekki gefið út neinar yfirlýsingar um þetta mál.“

„Þeir sem hafa völdin, þeir sem eiga að grípa inn í en horfa bara á, þeir taka þátt í dýraníði með því að gera ekki neitt,“ segir Steinunn.

Í þessu tilfelli hafði Vilhjálmur Diðriksson, bóndi á Helgavatni, fengið nóg af ágangi villifjár af Höfða svo hann handsamaði þær, fóðraði og beið eftir því að eigendur myndu sækja þær. Að biðtíma liðnum ætlaði hann að fara með kindurnar í kaupstaðinn en þá birtist starfsmaður sveitarfélagsins að sækja kindurnar.

Ámundi Sigurðsson, starfsmaður Borgarbyggðar, tekur við kindunum sem Vilhjálmur Diðriksson, bóndi á Helgavatni, hafði handsamað og ætlaði að fara með til sveitarstjórans.Aðsent

„Hann var margbúinn að hringja í sveitarstjórann, margbúinn að hringja í ábúendur og eigendur og hann var búinn að hringja í lögreglu en ekkert gerðist,“ segir Steinunn og bætir við að eigandinn eigi að vitja síns fjár.

„Það eru lög um það þegar svona afgangsfé er tekið. Það er ákveðinn tími sem á að geyma það og eigandinn hefur tækifæri á að ná í það og þarf að greiða útlagðan kostnað. Ef hann tekur ekki féð þá ber sveitarstjóra að taka féð og bjóða það upp af því hann þarf að fá upp í kostnaðinn,“ segir Steinunn um hvað eigi að gera við féð.

„Það er ekki hans svið að senda starfsmann Borgarbyggðar til þess að ná í þessar kindur til þess að færa þar. Svo segir hann að útlagður kostnaður verði sendur á eigandann. Þessi aðgerð sem var farið í á bænum fyrir mörgum árum fól í sér talsvert mikinn kostnað en það var aldrei borgað og sveitarfélagið stóð uppi með kostnaðinn.“

Og það á að halda áfram með það, sveitarfélagið er farið að taka úr sjóðum sínum til að keyra afgangsfé að nágrannabæjum,“ segir Steinunn að lokum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.