Innlent

Stefna á opnun Ævin­týra­borgar á bíla­stæða­planinu við Laugar­dals­völl

Atli Ísleifsson skrifar
Bílaplanið þar sem vonir standa til að Ævintýraborgin muni rísa.
Bílaplanið þar sem vonir standa til að Ævintýraborgin muni rísa. Vísir/Ívar

Reykjavíkurborg stefnir á að opna tímabundinn leikskóla á bílastæðaplaninu við Laugardalsvöll, næst hringtorginu á mótum Reykjavegar og Engjavegar. Gangi allt eftir er gert ráð fyrir að leikskólinn, sem yrði svokölluð Ævintýraborg, myndi opna á fyrri hluta næsta árs og geta tekið við um hundrað börnum.

Tillaga umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar að breytingu á deiliskipulagi Laugardals var lögð fyrir umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar á fundi fyrr í vikunni en málinu hins vegar frestað. 

Breytingin felst í að skilgreina tímabundinn byggingarreit fyrir leikskólann Laugasól á bílastæðinu. Væri um að ræða einnar hæðar byggingareiningar og lagt til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.

Mikið hefur verið fjallað um leikskólavandann í Reykjavík síðustu misserin, vandi sem nýr meðal annars að mönnunarvanda, myglu í leikskólabyggingum og hvernig hægt sé að brúa bilið fyrir foreldra milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Stefnt er að því að leikskólinn verði tímabundið á bílastæðinu við hringtorgið á mótum Reykjavegar og Engjavegar. Vísir/Vilhelm

Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður stýrihópsins Brúum bilið, kveðst vongóður um að hægt verði að opna Ævintýraborgina á fyrri hluta næsta árs.

Skúli Helgason er formaður stýrihópsins Brúum bilið.Vísir/Vilhelm

„Við erum með marga bolta á lofti varðandi leikskóla, meðal annars í Vesturbæ og Laugardal. Þessi lausn myndi hjálpa tveimur leikskólum – Laugasól og Hof – þar sem til stendur að stækka og ráðast í endurbætur,“ segir Skúli.

Hann segir að um væri að ræða tímabundna lausn. „Þetta er góð lausn sem gengur vonandi eftir. Við höfum verið í samskiptum við KSÍ og vonandi kemst þetta í auglýsingu sem fyrst til að hægt sé að fá viðbrögð þeirra sem skoðun hafa á málinu. Þetta eru sambærilegar einingar og hafa verið settar upp við Eggertsgötu, Vogabyggð og við Nauthólsveg.“

Skúli segir að horft sé til þess að þarna myndu skapast leikskólapláss fyrir um hundrað börn og að vonandi yrði hægt að opna á fyrri hluta næsta árs. „En það fer einnig meðal annars eftir framleiðsluferlinu hjá birgja,“ segir Skúli.

Bílastæðið sem um ræðir. Vísir/Ívar


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×