Lífið

Bossar og brjóst á öld unaðar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Mynd af Janelle Monáe kafa berbrjósta gegnum klofaröð prýðir kápu The Age of Pleasure.
Mynd af Janelle Monáe kafa berbrjósta gegnum klofaröð prýðir kápu The Age of Pleasure. Wikipedia

Fjórða plata tónlistarkonunnar Janelle Monáe, The Age of Pleasure, kemur út á morgun. Monáe hefur vakið athygli undanfarna mánuði í aðdraganda útgáfunnar vegna hispursleysis í fjölmiðlum, nektar á almannafæri og kynferðislegra tónlistarmyndbanda.

Tónlistarferill hinnar 37 ára gömlu Janelle Monáe spannar tvo áratugi og þrjár plötur í fullri lengd. Sú síðasta kom út 2018 og hafa aðdáendur því þurft að bíða í fimm ár eftir nýrri plötu.

Eflaust kannast margir þó frekar við Monáe vegna leiks hennar á skjánum en hún hóf leiklistarferil sinn fyrir níu árum. Hún sló hins vegar fyrst almennilega í gegn árið 2016 þegar hún lék burðarhlutverk í myndunum Hidden Figures og Moonlight. Síðan þá hefur hún leikið í fjölda mynda, nú síðast í Netflix-hittaranum Glass Onion.

Glass Onion var sannarlega stjörnum prýdd en auk Monáe léku Edward Norton, Daniel Craig, Kate Hudson, Dave Bautista og Katheryn Hahn í henni.Netflix

En nú er von á meiri tónlist frá Monáe, Öld unaðar er upp runnin. Á henni eiga hlustendur von á dansvænni partýtónlist um unað af ýmsu tagi.

Vélmenni frá 28. öld, skítug tölva og unaður

Janelle Monáe hefur í gegnum árin verið dugleg að blanda saman tónlistarstílum af ýmsum gerðum, skeyta saman poppi, hipp hoppi, fönki, sálartónlist og R&B. Öld unaðar er þar engin undantekning.

Með konsept-lögum sínum um messíaníska vélmennið Cindi Mayweather nær Monáe utan um þemu á borð við ást, sjálfið og frelsið.Skjáskot

Sömuleiðis má segja að Monáe hafi frá upphafi ferils síns verið mjög konsept-miðuð í tónlistarsköpun sinni.

Með fyrstu EP-plötu hennar, Metropolis, sem kom út 2007 varð til sagan af Cindi Mayweather, fjöldaframleiddu vélmenni og hliðarsjálfi Monáe, sem er frá árinu 2719. Þar verður Mayweather ástfangin af manneskju sem er bannað og er því dæmd til eyðileggingar.

Monáe hélt sögunni um Mayweather áfram á konsept-plötunum The ArchAndroid og The Electric Lady, fyrstu tveimur plötum hennar í fullri lengd. Þar segir frá því þegar Mayweather er send aftur í tímann til að frelsa heiminn undan leynilegu samfélagi sem bælir frelsi og ást heimsins.

Þriðja plata Monáe, Dirty Computer sem kom út 2018, er líka konsept-plata sem fjallar um vélmenni. Í þetta sinn vélmennið Jane 57821 sem reynir að öðlast frelsi undan alræðisstjórn í dystópískri framtíð. Sjálf sagði Monáe að platan væri virðingarvottur til kvenna og alls rófs kynvitundar þeirra.

Hér gefur að líta kápuna á The Age of Pleasure nema búið er að blörra það sem internetið má ekki sjá.Wikipedia

Það má því segja að The Age of Pleasure sé beint áframhald af því sem á undan kom. Hluti af þróun á umfjöllunarefnum Monáe, frá sjálfinu yfir í kynvitund og loks yfir í kynfrelsi. 

Monáe sagði í viðtali við útvarpsmannin Zane Lowe að þegar hún samdi lögin fyrir plötuna hafi henni gefist tækifæri til að stilla sig inn á það sem færði henni unað.

Hún hefur einnig sagt að öll lög plötunnar séu samin með það í huga að hægt sé að spila þau í partýum. Þau lög sem virkuðu ekki sem partý-fóður fengu að fjúka.

Mjaðmahnykkir og rassahristingar

Kápa plötunnar setur strax tóninn fyrir það sem koma skal en þar kafar Monáe berbrjósta gegnum röð af klofum ofan í sundlaug. Einnig er talið að val á útgáfudegi, 9. júní, sé engin tilviljun. Í Bandaríkjunum er 9. júní skammstafaður 6/9, aðeins skástriki frá tölunni 69, þekktri kynlífsstellingu.

Aðalsingúll plötunnar, „Varalitar-elskhugi“ (e. Lipstick Lover), fjallar einmitt um unað af kynferðislegum toga. Þar syngur Monáe um hvernig hún vilji hafa elskhuga sinn og hvernig viðkomandi eigi að fara að í ástaratlotunum.

Tónlistarmyndbandið við lagið hefur vakið mikla athygli. Þar má sjá Monáe skemmta sér ásamt vinum í sundlaugarpartý, dilla sér áhyggjulaus á sundfötunum og hnykkja mjaðmirnar í takt við vinkonur sínar.

Skömmu eftir útgáfu tónlistarmyndbandsins birti Monáe krúttlegt myndband af viðbrögðum móður sinnar við myndbandinu. Móðirin sagðist þar vera sátt með myndbandið en velti því fyrir sér hvort Youtube myndi leyfa svona mikið af berum bossum. Monáe taldi svo vera.

Þá benti móðirin á að það hefði mátt auka fjölbreytnina, hafa einn karlmannsrass með. Síðan sagði hún að ef rassarnir gerðu fólk ekki hysterískt þá yrði lagið gull-smellur. Hér fyrir neðan má sjá mæðgurnar spjalla um myndbandið:

Núna er Youtube hins vegar búið að setja aldurstakmörk fyrir áhorfi á myndbandinu. Teymi Monáe brást við því með því að gefa út ritskoðaða útgáfu þar sem allt það hold sem má ekki sjást er pixlað (eins og sést hér fyrir ofan).

En þó internetið geti ritskoðað myndbönd og myndir lætur Monáe það ekki stoppa sig. Platan sjálf kemur út í áþreifanlegu formi á vínyl og þar verður ekkert ritskoðað, hvorki kápa plötunnar né innra byrði hennar þar sem brjóst Monáe blasa við.

Þrífst í sviðsljósinu

Eins og kom fram hefur aðdragandinn að plötunni verið þó nokkur enda fimm ár liðin frá síðustu plötu. Þegar það líður svona langt á milli útgáfa eiga tónlistarmenn til að gleymast. 

Undanfarna mánuði hefur Monáe þess vegna verið sérstaklega dugleg við að halda sér í sviðsljósinu með hinum ýmsu uppákomum, sem virðast bæði tengdar og ótengdar plötunni.

Monáe ásamt andstæðing sínum, grínistanum Guillermo Rodriguez, á stjörnuleiknum.Getty

Hún lék eitt aðalhlutverkanna í Glass Onion, framhaldi Knives Out, ásamt einvalaliði leikara sem kom út síðasta haust. 

Í febrúar tók hún þátt í stjörnuhelgi NBA-deildarinnar og lék þar á als oddi. 

Ekki nóg með að lagið Float, sem er á plötunni, hafi verið þemalag stjörnuhelgarinnar heldur spilaði Monáe í stjörnuleik dægurstjarnanna (e. Celebrity All-Star Game).

Hún vakti sérstaka athygli í stjörnuleiknum fyrir vaska framgöngu og afar kröftugt „trash-talk“. 

Þá spilaði hún líka með sólgleraugu sem var kannski ástæðan fyrir því að hún ruglaðist á einum tímapunkti í leiknum og fattaði ekki að liðið hennar væri í sókn.

Næst vakti Monáe athygli á gala Metropolitan-óperunnar, hinu svokallað Met Gala, þar sem hún mætti í óvenjulegri múnderingu eftir fatahönnuðinn Thom Browne.

Þar var hún klædd í svarthvítan kápukjól sem var eins og tjald að stærð og var í fylgd tveggja jakkafataklæddra manna.

Á miðjum rauða dreglinum nam hún staðar og þá afklæddu mennirnir hana þar til kom í ljós gegnsær kjóll og sást þá í svört undirföt hennar þar undir.

Hér má sjá kjólinn sem Monáe var í á Met galanu. Vinstra megin má sjá hann í upprunalegri mynd og hægra megin hvernig hann umbreyttist.Getty

Í eftirpartýi galans spilaði hún síðan „Lipstick Lover“ í fyrsta skipti opinberlega við mikla hrifningu gesta. Það mátti sérstaklega sjá á viðbrögðum leikkonunnar Florence Pugh í skemmtilegu myndbandi sem Monáe deildi á Instagram.

Þessum fjölmiðlatúr Monáe lauk síðan núna í lok maí þegar hún birtist í forsíðuviðtali í tónlistartímaritinu Rolling Stone. 

Á forsíðunni má sjá hana bera að ofan með gulllitaða hárkollu og hendurnar fyrir geirvörtunum. Við myndina stendur „Frjálsari sem aldrei fyrr“. Monáe fer um víðan völl í viðtalinu sjálfu, talar um þróun sína sem listakonu og manneskju, andlega heilsu, partýstand og tilkomu nýju plötunnar.

Hún segir þar að nýja platan sé ekki bara venjuleg plata heldur hluti af nýjum og frjálsari lífsstíl sem miði að því að njóta lífsins og gera það sem veitir manni unað. 

Í tengslum við forsíðuna og aukna nekt sína sagði Monáe í viðtalinu „Ég er miklu glaðari þegar brjóstin mín eru ber og ég get hlaupið um frjáls“. En fyrir utan berskjöldun sína í tengslum við plötuna hefur Monáe ítrekað vakið athygli fyrir að bera sig á tónleikum og meðal almennings á undanförnum mánuðum.

Hún lýsir því einnig hvernig hún hafi með nýju plötunni yfirgefið fyrri pælingar sínar um fútúrískar vísindaskáldsöguborgir fyrir sitt eigið nærsamfélag, vini sína sem koma víða að, meðal annars frá Suður-Afríku, Ghana, Nígeríu, Karíbahafinu og Bandaríkjunum.

„Áður fyrr leit ég á sjálfa mig sem fútúrista,“ segir hún í viðtalinu, „Nærverandi ferðamaður er það sem ég kalla sjálfa mig núna. Ég ætla að einblína vandlega á það að vera nærverandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×