Innlent

Far­þegi á hælum hrundi niður stiga og rotaðist

Árni Sæberg skrifar
Amelía Rose er gert út af Sea Trips.
Amelía Rose er gert út af Sea Trips. Sea trips

Í janúar síðastliðnum féll farþegi niður stiga um borð í skemmtiskipinu Amelíu Rose og missti meðvitund eftir höfuðhögg. Meðal þess sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa er að farþeginn hafi verið í háhæluðum skóm og snúið baki í stigann þegar hann gekk niður hann.

Í skýrslunni segir að Amelía Rose hafi verið í norðurljósasiglingu á Faxaflóa þegar slysið var. Vindhraði hafi verið aðeins þrír metrar á sekúndu og sjór sléttur.

Farþegi sem var á útsýnissvæði ofan á stýrishúsi skipsins hafi fallið niður stiga, fengið höfuðhögg og misst meðvitund.

Við rannsókn slyssins hafi komið í ljós að á stiganum, sem er ansi brattur líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd, séu handrið beggja vegna og þrepin stöm. Skipstjóri hafi upplýst að leiðsögumenn kynni farþegum hvernig eigi að ganga niður stiga í skipinu, það er að þeir eigi að hafa stigann í augnsýn.

Konan hafi hins vegar snúið baki í stigann á niðurleið og hafi þar að auki verið í háhæluðum skóm.

Stiginn er brattur.Rannsóknarnefnd samgönguslysa

Þá hafi ekki tekist að hafa upp á vitnum þar sem allir farþegar voru farnir úr landi þegar þeirra var leitað en eftir slysið hafi það verið nefnt við skipverja að farþeginn hafi verið að snúa sér í efsta þrepinu og þá dottið. Farþeginn hafi verið fluttur með sjúkrabíl á neyðarmóttöku um leið og skipið kom til hafnar.

Í lok skýrslu segir að málið hafi verið skráð og gefi ekki tilefni til sérstakrar rannsóknar. Þó segir einnig að tilgangur skýrslunnar sé ekki að skipta sök eða ábyrgð og henni skuli ekki beitt sem sönnunargagni í dómsmáli.

Skýrsluna má lesa í tengdum skjölum hér að neðan:

Tengd skjöl



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×