Eurovísir hitti á Diljá á hóteli íslenska hópsins eftir dómararennslið hér í Liverpool á ellefta tímanum. Diljá lýsir því að snúningspallurinn hafi byrjað að láta ófriðlega á blaðamannarennslinu í höllinni fyrr í dag en svo sat hann pikkfastur á dómararennslinu í kvöld.
„Það var smá tæknivandamál, ég er semsagt með snúningspall og hann hætti að virka. En það verður lagað og sem betur fer gerðist það í dag og gerist ekki á morgun þegar útsendingin er. En mér gekk mjög vel, það er geggjuð stemning í hópnum,“ segir Diljá.
En hvað fer í gegnum hugann á sviðinu þegar svona tæknivandræði verða?
„Bara að standa mig sem best, reyna að halda í tilfinninguna í laginu og halda í það sem ég er að gera,“ segir Diljá, sem er gríðaránægð með frammistöðuna í kvöld. Fullur salur af áhorfendum fylgdist með rennslinu.
„Að fá salinn var meira spark, það var geggjað,“ segir Diljá. Og sparar ekki stóru orðin: „Ég held ég hafi aldrei sungið Power jafn vel og í kvöld.“
Myndskeið af flutningi Diljár á blaðamannarennslinu í dag, þar sem Diljá stígur einmitt á umræddan snúningspall, má sjá hér fyrir neðan.
Við ræðum nánar við Diljá í Eurovísi á morgun en hún keppir í seinni undanúrslitum Eurovision í Liverpool annað kvöld. Útsending hefst klukkan 19 að íslenskum tíma og við fylgjumst með í beinni textalýsingu úr blaðamannahöllinni, eins og á fyrri undanúrslitunum á þriðjudag.