Innlent

Leituðu að hring en fundu bíl

Máni Snær Þorláksson skrifar
Leitin að hringnum sem um ræðir bar ekki árangur. Hins vegar fannst annar hringur, Matchbox bíll og fleira í tjörninni
Leitin að hringnum sem um ræðir bar ekki árangur. Hins vegar fannst annar hringur, Matchbox bíll og fleira í tjörninni Vísir/Björgunarsveitin Suðurnes

Hringur sem maður á þrítugsaldri týndi á dögunum í Reykjavíkurtjörn fannst ekki við nánari leit í dag. Hins vegar fannst fullt annað, þar á meðal annar hringur. Ákveðið hefur verið að ljúka leitinni í bili.

Leit að hringnum sem maðurinn týndi hófst í gær. Um er að ræða hring sem hafði mikið tilfinningalegt gildi fyrir manninn þar sem frænka hans, sem nú er látin, hafði gefið honum hann á sínum tíma. Maðurinn hafði týnt hringnum í tjörninni er hann var að gefa öndunum þar að borða.

Fjölskylda mannsins hafði samband við björgunarsveitina Suðurnes sem ákvað að hjálpa til við leitina. Björgunarsveitin sendi kafara í Reykjavíkurtjörn í gær sem leituðu eftir botninum að hringnum en án árangurs. 

Fundu fullt af dóti í drullunni

Haraldur Haraldsson, formaður björgunarsveitarinnar, segir í samtali við fréttastofu að í dag hafi leitinni að hringnum verið haldið áfram en án árangurs. „Nú erum við búnir að vera að leita í allan morgun. Við vorum að leita með málmleitartækjum og alls konar búnaði,“ segir Haraldur.

„Við verðum eiginlega að hætta núna. Við erum búin að gefa þessu tvo góða daga og ætlum að segja þetta gott í bili.“

Þrátt fyrir að hringurinn hafi ekki fundist þá kom nóg af hlutum í ljós í tjörninni. „Við fundum fullt af alls konar málmi og dóti í drullunni. Við fundum hring, bara ekki rétta hringinn,“ segir Haraldur.

Á meðal þess sem fannst einnig í leitinni var bíll. „Við fundum bíl í tjörninni, reyndar bara Matchbox bíl, svona lítinn krakkabíl,“ segir Haraldur. Þá hafi einnig fundist barmmerki frá Vinstri grænum og heill þúsundkall.  

Áhugaverðir hlutir sem fundust í leitinni.Björgunarsveitin Suðurnes

Haraldur segir að þó svo að um óvenjulegt útkall hafi verið að ræða þá hafi leitin verið góð æfing fyrir björgunarsveitina.

„Þetta var rosalega lítið mál fyrir okkur. Við erum tveir hérna sem erum í vaktavinnu og vorum í fríi, þannig það var ekkert mál að græja þetta.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×