Erlent

Laun venjulega fólksins lækka en laun hinna efnuðu hækka

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Getty Images

Raunlaun vinnandi fólks á Spáni lækkuðu um fimm og hálft prósent í fyrra og á heimsvísu lækkuðu laun vinnandi fólks. Á sama tíma hækkuðu laun stjórnenda í fyrirtækjum um tæplega 10 prósent.

Verðbólgan étur upp launahækkanir almennra launþega

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Oxfam, sem eru alþjóðleg samtök sem berjast gegn fátækt í heiminum. Þessi launalækkun á Spáni þýðir að hver maður hafði í raun að meðaltali 1.523 evrum minna til ráðstöfunar í fyrra en árið áður.

Að meðaltali lækkuðu laun á heimsvísu um 3,19%, en vegna lítilla launahækkana á Spáni var lækkunin meiri þar en víðast annars staðar. Þetta þýðir með öðrum orðum að launahækkanir venjulegs fólks héldu að engu leyti í við aukna verðbólgu sem rakin er til Covid-farsóttarinnar og stríðsins í Úkraínu.

Getty Images

Stjórnendur fá miklu meiri launahækkanir en aðrir

Þessi veruleiki almennra launþega er í hróplegu ósamræmi við himinháan arð fyrirtækja sem eru skráð á markaði. Arðgreiðslur þeirra hækkuðu um 26,8% og námu alls um 26 milljörðum evra.

Þá kemur fram í gögnum Oxfam að undantekning frá þessum versnandi kjörum vinnandi fólks, eru stjórnendur fyrirtækja. Laun þeirra hækkuðu að meðaltali um tæp 10 prósent þegar búið er að draga verðbólguáhrif frá, en um 16 prósent ef ekki er leiðrétt fyrir verðbólguáhrifum.

Með 147-föld árslaun 

Spænskur verkamaður þarf að vinna í 147 ár til að afla árslauna stjórnenda hjá 35 efstu fyrirtækjunum í spænsku kauphöllinni. Með öðrum orðum, stjórnendur þessara fyrirtækja eru með 147-föld verkamannalaun á mánuði.

Oxfam segir í greiningu sinni að óhóflegar arðgreiðslur til hluthafa komi einungis auðugasta hluta samfélagsins til góða og auki ójöfnuð. Á Spáni endar 86% arðgreiðslna í vasa þeirra 10 prósenta sem eiga mestan pening fyrir.

Amitabh Behar, forstjóri Oxfam Intermón, segir að á sama tíma og eigendur og stjórnendur fyrirtækja haldi því fram að ekki sé borð fyrir báru til launahækkana þá gildni bankainnistæður hinna ríku sem aldrei fyrr.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×