Innlent

Einn liggur enn þungt haldinn á spítala

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Skipstjóri segir bátinn ónýtan eftir brunann. Slökkvilið var um tólf klukkustundir að slökkva eldinn.
Skipstjóri segir bátinn ónýtan eftir brunann. Slökkvilið var um tólf klukkustundir að slökkva eldinn. vísir/Egill

Einn liggur enn þungt haldinn á sjúkrahúsi eftir bruna í bátnum Grísmnesi í Njarðvíkurhöfn. Að sögn lögreglu liggja eldsupptök enn ekki fyrir.

Sjö voru um borð í bátnum Grímsnesi GK sem var við festar í Njarðvíkurhöfn þegar eldur kom upp laust eftir klukkan tvö aðfaranótt þriðjudags.

Karlmaður á fimmtugsaldri lést í brunanum og einn var fluttur á bráðamóttöku, þar sem hann liggur enn þungt haldinn. Yfirvélstjóri sem varð fyrstur var við eldinn og lét aðra í áhöfninni vita slasaðist nokkuð og hlaut brunasár á höndum og baki. Aðrir komust að sjálfsdáðum og klakklaust frá borði.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í samtali við fréttastofu að málið sé til rannsóknar en að ekkert liggi enn fyrir um eldsupptök. Aðspurður segir hann rannsóknina ekki beinast að neinu saknæmu og að rannsóknarnefnd samgönguslysa sé einnig komin með málið.

Sigvaldi Hólmgrímsson skipstjóri bátsins segir bátinn ónýtan. Slökkvilið hafði af því áhyggur í gær að báturinn gæti sokkið í höfninni þar sem töluverður sjór var í honum. Sigvaldi segir búið að rétta hann við og telur ekki lengur hættu á því.

Hann segir að báturinn verði ekki látinn liggja lengi við bryggjuna en að ekkert hafi verið ákveðið með næstu skref. Til stóð að hætta útgerð á bátnum um mánaðarmótin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×