Innlent

Formaður Bændasamtakanna vill færanlegan brennslubúnað

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Formaður Bændasamtakanna segir að allt í kringum riðuna í sauðfé á bænum Syðri - Urriðaá í Miðfirði og umræðuna um urðun fjárins hafi verið klaufaleg. Hann vill að keyptur verði færanlegur brennslubúnaður til að bregðast við aðstæðum eins og í Miðfirði.

Eins og allir vita þá kom upp riða á tveimur bæjum í Miðfirði í Vestur Húnavatnssýslu og er búið að farga öllu fénu, um fjórtán hundruð fjár. Það gekk vel með féð frá Bergsstöðum en það var brennt í Kölku á Suðurnesjum en það var meira vesen með féð frá Syðri – Urriðaá vegna urðunar þess eins og formaður Bændasamtakanna, Gunnar Þorgeirsson, þekkir.

„Þetta er allt mjög óheppilegt og ég held að allt of margt hafi klikkað, sem átti alls ekki að klikka,“ segir Gunnar og bætir við.

“Ég hef nú, sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður alltaf haft þá skoðun að færanlegur brennslubúnaður eigi að vera til í landinu til að bregðast við svona áföllum og ég held að það sé orðið mjög brýnt mál að leysa.“

Maður heyrir að margir bændur eru mjög ósáttir við allar þessar aðgerðir. Hvað segir þú um það?

Gunnar vill að keyptur verði færanlegur brennslubúnaður til að bregðast við aðstæðum eins og í Miðfirði með riðuna þar á tveimur bæjum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Já, já, auðvitað verða menn svolítið ósáttir þegar þetta kemur upp. Þetta gerist hjá mér allt í einu, þá er þetta svolítið erfitt en enn og aftur þá er þetta gert á grundvelli þeirra laga og reglugerða , sem eru í gildi í dag en ég held að það sé alveg tilvalið að taka samtalið við ráðuneytið hvort það eru einhverjar aðrar lausnir í málinu heldur en þessi vegferð,“ segir Gunnar.

Hvaða lausn gæti það verið?

„Það er nú kannski verið að horfa til sýnatöku úr sauðfé í stærri skala heldur en við höfum verið að gera og mun það gefa tilefni til þess að fara aðra vegferð heldur en svona vegferð,“ segir formaður Bændasamtakanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×