Innlent

Líkleg riða á öðru stóru býli

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
_G8K8738
Vísir/Vilhelm

Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að riða hafi greinst á öðru býli í Miðfjarðarhólfi. Smitið hefur ekki verið staðfest endanlega en yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun segir unnið út frá því að um riðu sé að ræða.

Í síðustu  viku greindist riða á bænum Bergsstöðum í Vestur-Húnaþingi og fella þurfti allar tæplega sjö hundruð kindurnar á bænum. Riða hefur ekki áður greinst á svæðinu, eða í svokölluðu Miðfjarðarhólfi, og bændum var því frjálst að flytja kindur á milli bæja. Tuttugu kindur úr hjörðinni höfðu verið fluttar annað og í forgangi var að greina sýni sem tekin voru úr þeim til að varpa ljósi á mögulega dreifingu í sveitinni.

Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að riða hafi greinst í einni þeirra. Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá MAST, segir að stórt býli sé undir með um sjö hundruð kindur. Fari sem horfir þarf að fella þær allar. Loka niðurstaða ætti að liggja fyrir síðar í dag.

Sigurborg segir mikilvægt að ná að fella kindurnar fyrir sauðburð sem er á allra næsta leyti, bæði vegna þess að kindunum fjölgar og einnig sökum þess að smithættan er sérstaklega mikil við þær aðstæður.

„Það þarf allt að ganga upp til þess að svo verði. Það ekki bara aflífun heldur þarf líka að farga hræum. Og síðustu fréttir af Kölku eru þær að þar er bilun og þeir geta ekki tekið við þeim til brennslu. Þá er bara ein leið og það er að urða. Og það er í höndum annarra aðila að ákveða það. Það eru Umhverfisstofnun og sveitarfélögin sem sjá um það,“ segir Sigurborg sem tekur fram að kindurnar verði ekki felldar fyrr en ákvörðun liggur fyrir um slíkt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×