Lífið

Lasse Welland­er er látinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Wellander sést hér á tónleikum með ABBA á Wembley-leikvanginum í London árið 1979.
Wellander sést hér á tónleikum með ABBA á Wembley-leikvanginum í London árið 1979. Gus Stewart/Getty

Sænski tónlistarmaðurinn Lasse Wellander er látinn, 70 ára að aldri. Hann var meðal annars gítarleikari fyrir sænsku hljómsveitina ABBA.

ET greinir frá því að Lasse hafi látist á föstudag, eftir að hafa glímt við krabbamein. 

„Það er með ólýsanlega sorg í hjarta sem við tilkynnum að okkar ástkæri Lasse er fallinn frá. Lasse veiktist fyrir skömmu, en í ljós kom að um útbreitt krabbamein var að ræða. Hann lést snemma á föstudaginn langa, umkringdur ástvinum,“ skrifar fjölskylda Lasse á Facebook síðu hans. 

Wellander hóf að spila á gítar á sjöunda áratugnum, þá á barnsaldri, og var í hljómsveitum í Nora, heimabæ sínum í Svíþjóð. Það var svo árið 1974 sem Wellander fór að vinna með ABBA og tók meðal anars upp með þeim lögin Intermezzo No.1 og Crazy World, auk þess sem hann spilaði með sveitinni á tónleikum.

Þó að Wellander hafi ekki verið meðlimur sveitarinnar þá vann hann náið með henni og að verkefnum tengdum henni. Hann tók meðal annars þátt í að taka upp lögin sem notuð voru í söngleikjamyndinni Mamma Mia, sem notast einungis við lög ABBA. 

Auk þess að hafa starfað með ABBA gaf Wellander út sjö sólóplötur, en tvær þeirra fóru hátt á topplistum um miðjan níunda áratuginn.

Árið 2005 var Wellander ssæmdur Albin Hagström minningarverðlaununum af sænsku konunglegu tónlistarakademíunni. Árið 2018 var hann þá verðlaunaður af Samtökum sænskra tónlistarmanna fyrir störf sín. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×